Virkjun Héraðsvatna í Skagafirði

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 15:16:22 (1621)

1996-12-02 15:16:22# 121. lþ. 32.1 fundur 117#B virkjun Héraðsvatna í Skagafirði# (óundirbúin fsp.), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[15:16]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ef það gengur eftir sem ég tel að flestir voni að geti gerst --- reyndar hefur ákvörðun verið tekin um stækkun Ísals --- þ.e. það áhersluatriði stjórnvalda að stækka Járnblendifélagið og ef samningar takast milli íslenskra stjórnvalda og Columbia Ventures Corporation, sem ekki er þó hægt að segja til um á þessari stundu hvort verði, þá er ljóst að þeir virkjunarkostir sem munu fara til að mæta þeirri orkuþörf sem þar skapast eru Nesjavellir, stækkun Búrfells, Kvíslaveitur, stækkun Blöndulóns, Krafla og Bjarnarflag ásamt Sultartanga.

Þessar virkjanir duga til þess að anna þeirri eftirspurn sem frá þessum áformum kæmu. Í hvað verður ráðist næst hlýtur hins vegar að ráðast af því hversu mikil eftirspurnin verður, þ.e. hversu stór og orkufrekur iðjukosturinn yrði sem um væri að ræða. Ef um mjög stóran og orkufrekan iðjukost væri að ræða, er ekki nokkur vafi að Fljótsdalsvirkjun væri mjög framarlega í þeirri röð. Ástæðan er sú að Fljótsdalsvirkjun er tilbúin til útboðs og er langlengst komin í undirbúningi allra þeirra virkjunaráforma sem Landsvirkjun hefur á prjónununum ef frá eru taldir þeir kostir sem ég minntist á í upphafi.

Varðandi Héraðsvötnin, þá verð ég fúslega að játa að ég þekki ekki nákvæmlega hversu langt Landsvirkjun er komin í undirbúningsrannsóknum á Héraðsvötnunum. Það er hins vegar allt saman rétt sem hv. þm. benti á með staðsetningu þeirrar hugsanlegu virkjunar. En ég segi bara: Ég er tilbúinn til þess að skoða það.