Sleppibúnaður gúmmíbáta

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 15:28:02 (1628)

1996-12-02 15:28:02# 121. lþ. 32.1 fundur 119#B sleppibúnaður gúmmíbáta# (óundirbúin fsp.), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[15:28]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Um síðustu áramót lágu málin þannig fyrir að fjöldi skipa hafði ekki þennan sleppibúnað um borð og hann var ekki til í landinu og ógjörningur að fá hann. Af þeim sökum fannst mér sjálfgefið sem ráðherra þessara mála að fresta því að gildistakan yrði hinn 1. janúar sl., enda hefði það leitt til þess að það hefði orðið nauðsynlegt fyrir Siglingamálastofnun að stöðva hluta flotans því ekki gátum við látið það viðgangast að skip væru með ólöglegan björgunarbúnað um borð ef við á annað borð gerðum kröfu um að slíkur búnaður yrði um borð. Ég held að þetta sé augljóst mál. Það voru þess vegna ekki LÍÚ eða útgerðarmenn sem fóru fram á að gildistöku yrði frestað heldur var það algerlega mín ákvörðun og alls ekki tekin að óathuguðu máli.

Hinn 1. júlí sl. endurtók sagan sig, þ.e. að sleppibúnaður var ekki kominn um borð í skipin og lá ekki fyrir. Á hinn bóginn mun ég fá skýrslu frá þeim starfshópi sem er að athuga þessi mál nú í næstu viku og ég geri mér vonir um það, án þess að geta fullyrt, að ekki þurfi aftur að koma til frestunar á gildistökunni hinn 1. janúar nk. Það er þess vegna alveg ljóst að reglugerðin hefur verið í gildi, en spurningin er hvenær afdráttarlaus krafa verður gerð um sleppibúnaðinn. Eins og nú standa sakir gæti það orðið 1. janúar nk. Ég hef ekki endanleg gögn í höndum til að vita hvort svo geti orðið.