Brot á lögum um framleiðslu landbúnaðarvara

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 15:31:18 (1630)

1996-12-02 15:31:18# 121. lþ. 32.1 fundur 120#B brot á lögum um framleiðslu landbúnaðarvara# (óundirbúin fsp.), ÁE
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[15:31]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þann 20. nóv. sl. spurði hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir hæstv. landbrh. um viðhorf hans til samninga um sölu á lambakjöti sem bændur, t.d. í Húnavatnssýslu, hafa gert á öðru verði en sex- og fimmmannanefnd hefur ákvarðað samkvæmt lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og hvort ráðherra teldi að hér væri um lögbrot að ræða og til hvaða ráðstafana hann ætli að grípa ef svo væri. Í svari hæstv. landbrh. kom fram að heimildir í lögum vantar fyrir þessum viðskiptum, og ég vitna orðrétt í svar hæstv. ráðherra, með leyfi forseta: ,,Af því sem að framan hefur verið rakið verður að telja að ekki hafi verið farið að lögum við þá samningsgerð sem spurt er um.`` Enn fremur sagði hæstv. ráðherra, með leyfi forseta: ,,Auðvitað er það ekki góð fyrirmynd að framfylgja ekki lögum en spurningin er kannski hver á að gera það. Í landbrn. er a.m.k. ekkert lögregluyfirvald og ekkert dómsvald. Það eru önnur ráðuneyti sem fara með það.`` Spurning mín til hæstv. dómsmrh. er hvort hann muni beita sér í þessu máli, þ.e. að lög verði virt með lögsókn og ef svo er á hendur hverjum, eða hvort lögum verði breytt. Ég vil einnig vita hvort hæstv. dómsmrh. geti sætt sig við þá stöðu að samráðherra hans segi að lög í landinu séu brotin og hann hyggist ekki gera neitt í þeim málaflokki sem heyrir undir ráðuneyti hans.