Fjárfestingar sölusamtaka í sjávarútvegi erlendis

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 15:38:11 (1634)

1996-12-02 15:38:11# 121. lþ. 32.95 fundur 112#B fjárfestingar sölusamtaka í sjávarútvegi erlendis# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[15:38]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Að undanförnu hefur umræða um sjávarútvegsmál verið nokkuð fyrirferðarmikil hér í sölum Alþingis, í fjölmiðlum og úti í þjóðfélaginu öllu. Sú umræða hefur fyrst og fremst snúist um annars vegar það sem menn kalla veiðleyfagjald eða auðlindaskatt og hins vegar fregnir af því sem virðist særa réttlætiskennd þjóðarinnar, það sem nefnt hefur verið kvótabrask, frásagnir af einstaklingum sem stunda lítið útgerð en eru að selja þjóðareignina fyrir milljónir og tugi milljóna. Umræðan um þessi mál hefur verið nokkuð fyrirferðarmikil en minna hefur farið fyrir öðrum þætti í sjávarútvegsstefnu, þ.e. vinnslunni.

Sjávarútvegur snýst ekki eingöngu um veiðar heldur og um vinnslu og markaðssetningu. Ég hygg að allir stjórnmálaflokkar hafi haldið því fram árum saman að efla bæri fullvinnslu á sjávarafla hér innan lands. Um þetta hefur verið að því er virðist þjóðarsátt og þverpólitísk samstaða. Og hvers vegna hafa menn verið sammála um þetta? Það er vegna þess að sjávarútvegur er mikilvægasta atvinnugrein þjóðarinnar og það eru þjóðhagslegir hagsmunir að gera sem mest verðmæti og skapa sem flest störf úr þeirri auðlind sem sjórinn er. Hins vegar má segja að þrátt fyrir þessa samstöðu, þverpólitísku samstöðu, þá hafi gengið hægt á þessu sviði. Það eru til allrar hamingju nokkur fyrirtæki að fikra sig í átt að fullvinnslu sjávarafla víða um landið en óhætt er að segja að eitt einkennir þau öll, og talsmenn þeirra kvarta undan því, að fá lítinn sem engan stuðning eða hvatningu í þeim tilraunum sem þeir eru að gera.

Samhliða þessu er svo vert að skoða þá þróun sem á sér stað erlendis á vegum Íslendinga. Samkvæmt fréttum fjölmiðla á síðustu missirum má áætla að hin svonefndu stóru sölusamtök í sjávarútvegi hafi á tiltölulega skömmum tíma fjárfest erlendis fyrir 4--6 milljarða króna í fullvinnsluverksmiðjum bæði austan hafs og vestan. Enda hefur ekki staðið á viðurkenningum og þökkum erlendra sveitarfélaga m.a. fyrir þetta framsýna framtak Íslendinga á erlendri grund sem koma þar af myndarskap upp fullvinnsluverksmiðjum sem skapa verðmæti og mörg hundruð störf. Þetta er umhugsunarefni og ég vil taka skýrt fram að með þessu tali mínu er ég ekki að veitast að sölusamtökunum sem hafa unnið afskaplega merkilegt og þarft starf.

Hins vegar er vert að hafa í huga hvað samtímis er að gerast hér innan lands. Ég nefndi áðan hversu hægt gengur að þróa fullvinnslu sjávarafurða hér innan lands. Við heyrum samtímis fregnir af því að landvinnsla er rekin með tapi og þróunin virðist vera sú að í vaxandi mæli færist landvinnslan, vinnsla sjávarafla, úr landi og út á sjó. Það er ástæða, herra forseti, fyrir þingið að ræða þetta vegna þess að þetta snertir þjóðarhagsmuni. Það er eðlilegt að velta upp ýmsum spurningum samfara þessu. Hvaða áhrif hefur það á þróun fullvinnslu hér heima þegar fjárfest er, fjármagn flutt úr greininni fyrir um 4--6 milljarða úr landi til uppbyggingar og þróunar starfa erlendis? Spurningin snýst um hvar við viljum að fullvinnslan fari fram. Viljum við að hún fari fram hér heima eða viljum við leggja áherslu á að skapa þessi störf erlendis? Málið er auðvitað ekki einfalt en við þurfum að velta þessu upp. Vegna þess að fullvinnsla felur í sér aukna verðmætasköpun. Hún felur í sér aukin störf og snertir þar af leiðandi efnahagsmál og hún snertir byggðamál. Það er fátt sem snertir byggðir landsins, sjávarplássin, jafnmikið og vinnsla í sjávarútvegi. Hvar á krafturinn í uppbyggingu sjávarútvegsins og fullvinnslu að vera? Á hann að vera hér heima eða erlendis? Það má spyrja þegar stór sölusamtök hafa fjárfest verulega erlendis, hvort þau muni ekki með kjafti og klóm verja þá fjárfestingu sína, tryggja að sú fjárfesting fái nauðsynlegt fjármagn, nauðsynlegt hráefni til að starfsemin geti haldið áfram. Hvaða áhrif hefur það á uppbygginguna hérlendis? Fleiri atriði mætti nefna.

Ég sé að tími minn er á þrotum og ég hefði gaman af að heyra viðbrögð hæstv. sjútvrh. við þessum málum og þessari þróun vegna þess að þetta snertir þjóðarhagsmuni og Alþingi hlýtur að þurfa að velta þessari spurningu fyrir sér.