Fjárfestingar sölusamtaka í sjávarútvegi erlendis

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 15:43:38 (1635)

1996-12-02 15:43:38# 121. lþ. 32.95 fundur 112#B fjárfestingar sölusamtaka í sjávarútvegi erlendis# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[15:43]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að einn helsti vaxtarbroddur í íslenskum sjávarútvegi um þessar mundir er að auka fullvinnslu afurða og gera meira úr markaðsstarfi. Það hafa orðið mjög miklar breytingar í þessa veru á undanförnum árum. Það er rangt að það hafi miðað hægt í því efni. Það hafa orðið mjög miklar breytingar í íslenskri fiskvinnslu á undanförnum árum þar sem fyrirtæki eru í mjög auknum mæli að vinna afurðir beint inn á neytendamarkaði. Ég geri ráð fyrir að það sé ein helsta leið þeirra fiskvinnslufyrirtækja sem nú eiga í erfiðleikum varðandi vinnslu á botnfiski að auka frekar vinnslu og komast með öflugra markaðsstarfi nær neytendum á erlendum mörkuðum. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki og sölusamtök hafa á hinn bóginn fjárfest erlendis um margra áratuga skeið. Og ég geri ráð fyrir því að þeir sem til þekkja viti að einmitt sú fjárfesting hefur verið lykillinn að aðgangi þeirra og sterkri stöðu víða á mörkuðum. Margt af þeirri fjárfestingu sem nú fer fram er lykill að öflugra markaðsstarfi, öflugri þátttöku íslenskra fyrirtækja í heimsverslun með fisk. Er lykill að nýjum mörkuðum fyrir íslensk iðnfyrirtæki. Það er ljóst að þessi útrás íslensks sjávarútvegs hefur verið veruleg lyftistöng fyrir íslenskan iðnað og hafa nýlega verið fluttar fregnir af iðnfyrirtækjum sem eru að margfalda framleiðslu sína einmitt í beinum tengslum við útrás íslensks sjávarútvegs á erlendum mörkuðum.

[15:45]

Ég átta mig ekki alveg á því hvert hv. þm. er að fara með hugleiðingum sínum. Okkur greinir ekki á um hversu mikilvægt það er að við vinnum okkur út úr ákveðnum vanda varðandi vinnslu á botnfiskafurðum með aukinni fullvinnslu afurða. Á hinn bóginn velti ég því fyrir mér hvort hv. þm. er að ýja að því að hér eigi að taka upp opinbera fjárfestingarstýringu til þess að hafa áhrif á þessa þróun. Ég ætla ekki að leggja honum í munn þau orð eða gera honum upp þær hugsanir en maður hlýtur að spyrja í kjölfar slíkrar ræðu hvort hv. þm. er að leiða hugann að því eða opna fyrir umræðu um opinbera fjárfestingarstýringu.

Ég get svarað því ef það vakir fyrir hv. þm. Það er ekki á dagskrá þeirrar ríkisstjórnar sem nú situr að taka upp opinbera fjárfestingarstýringu í þessu efni. Hún mun hins vegar hvetja til þess hér eftir sem hingað til að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki sinni frekari fullvinnslu og öflugra markaðsstarfi og hún mun fyrir sitt leyti greiða fyrir sókn sjávarútvegsins út á við vegna þess að það er okkar mat að það sé alhliða lyftistöng fyrir sjávarútveginn og iðnaðinn í landinu.