Fjárfestingar sölusamtaka í sjávarútvegi erlendis

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 15:52:46 (1638)

1996-12-02 15:52:46# 121. lþ. 32.95 fundur 112#B fjárfestingar sölusamtaka í sjávarútvegi erlendis# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[15:52]

Magnús Stefánsson:

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni fyrir að hefja umræðu um þetta mál. Ég held að það sé nauðsynlegt að velta þessu máli fyrir okkur. Ég vil einnig þakka hæstv. sjútvrh. fyrir hans svör.

Þessi mál sem hér um ræðir eru fyrir margar sakir athyglisverð fyrir okkur hér á landi. Bolfiskvinnslan á víða um landið við erfiðleika að glíma og fiskvinnslustöðvum hefur verið lokað. Dæmi eru um það og þar með hefur fólk misst sína atvinnu. Þetta hefur neikvæð áhrif á viðkomandi byggðarlög og sú hætta hlýtur að vera fyrir hendi að um viðvarandi ástand geti orðið að ræða, ekki síst vegna þess að frumvinnsla á bolfiski hefur í síauknum mæli verið að færast af landi og út á sjó um borð í vinnsluskip.

Það er hins vegar jákvætt að mörg vinnslufyrirtæki í landinu hafa náð að byggja sig upp með fjárfrekum fjárfestingum til frekari fullvinnslu og sú starfsemi hefur tryggt grundvöll þessara fyrirtækja, en því miður er ekki nema hluti vinnslufyrirtækja með forsendur fyrir slíkri fjárfestingu og uppbyggingu. Þetta sýnir þó að mögulegt er að byggja íslensk sjávarútvegsfyrirtæki upp til frekari fullvinnslu á sjávarafla og mörg þeirra hafa gert það mjög myndarlega eins og ég hef nefnt.

Það sem er ekki síst athyglisvert í sambandi við sölusamtökin sem hér eru til umræðu er að þau eru í mörgum tilfellum orðin eigendur í stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins og er ekki laust við að það geti talist óeðlilegt. Það sýnir hvernig sölusamtökin sem eiga að þjóna framleiðslufyrirtækjunum hafa fitnað af því og eru nú farin í krafti síns fjármagns smám saman að eignast sjávarútvegsfyrirtækin í landinu. Þar með eru sölusamtökin einnig komin með ítök í stóran hluta aflaheimildanna.

Á sama tíma og mjög kreppir að í fiskvinnslunni í landinu virðast sölusamtökin sjá sér hag í því að flytja hráefni úr landi í verksmiðjur sínar erlendis þar sem úrvinnsla og fullvinnsla fer fram. En ég get tekið undir það sem sumir hv. þingmenn hafa sagt að það er ekki að öllu leyti neikvætt. Við höldum þar með áfram að flytja út hráefnið til fullvinnslu í öðrum löndum og það hlýtur að vera til umhugsunar af hverju sölusamtökin beita sér ekki enn frekar fyrir því að leggja sína fjármuni í fjárfestingar í fullvinnslu hér á landi þannig að arður þeirra af sjávarútvegi nýtist frekar til uppbyggingar atvinnulífs hér á landi heldur en erlendis. Ég tel þó, herra forseti, að með þessari umræðu sé ekki verið að leggja til að tekin verði upp opinber fjárfestingarstýring, eins og hæstv. sjútvrh. nefndi, en ég vil að lokum segja það sama og ég byrjaði mál mitt á, ég held að það sé mjög nauðsynlegt að við ræðum þessi mál í þingsölum.