Fjárfestingar sölusamtaka í sjávarútvegi erlendis

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 15:58:02 (1640)

1996-12-02 15:58:02# 121. lþ. 32.95 fundur 112#B fjárfestingar sölusamtaka í sjávarútvegi erlendis# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[15:58]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það var fagnaðarefni að það kom mjög skýrt fram af hálfu hv. 3. þm. Vesturl. að hann var ekki að tala fyrir opinberri fjárfestingarstýringu í þessu efni. Ég fagna því að það liggur fyrir í þessari umræðu. Hann vakti hins vegar athygli á því að það kynni að vera óeðlilegt að sölufyrirtæki ættu hlutafé í útgerðarfyrirtækjum eða fiskvinnslufyrirtækjum. Ég ætla ekki að leggja dóm á það. Hins vegar hefur það verið að gerast á mörgum undanförnum árum vegna veikrar fjárhagsstöðu sjávarútvegsfyrirtækjanna að þjónustufyrirtæki þeirra hafa þurft að leggja fjármagn í sjávarútvegsfyrirtækin.

Nú hafa hins vegar þau gleðilegu umskipti orðið á allra síðustu árum að fjárhagsstaða sjávarútvegsfyrirtækjanna hefur verið að styrkjast á nýjan leik og þeir eru nú eftirsóknarverður fjárfestingarkostur. Á sama tíma fer fram mikil umræða um það í þjóðfélaginu að það verði, eins og hv. málshefjandi vakti athygli á, að breyta sjárvarútvegsstefnunni til þess að koma í veg fyrir að sjávarútvegsfyrirtækin geti haft þann styrk sem þau hafa verið að öðlast nú á allra síðustu missirum. Þannig ganga oft hugmyndirnar hver á móti annarri. Ég tel að í þessu samhengi sé það einn mikilvægasti árangurinn sem við höfum verið að ná, að fjárhagsstaða fyrirtækjanna í sjávarútvegi er að verða það sterk að þau eru að verða eftirsóknarverður fjárfestingarkostur og þurfa ekki að vera upp á náð og miskunn eigin þjónustufyrirtækja. Ég tel að það væri mikið glapræði að breyta um stefnu sem kippti þessum grundvelli undan þessum höfuðframleiðslufyrirtækjum landsins.