Málefni Þróunarsjóðs og fiskvinnslufyrirtækja

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 16:01:04 (1641)

1996-12-02 16:01:04# 121. lþ. 32.96 fundur 113#B málefni Þróunarsjóðs og fiskvinnslufyrirtækja# (umræður utan dagskrár), ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[16:01]

Árni Johnsen:

Herra forseti. Nokkrar deilur hafa verið að undanförnu og fjölmiðlafár vegna sölu Þróunarsjóðs sjávarútvegsins á eignarhlut í fiskvinnslufyrirtækjunum Búlandstindi og Meitl\-inum. Þorri starfsmanna Meitilsins sendi stjórn Þróunarsjóðsins áskorun þar sem þeirri skoðun var komið á framfæri að ekki hefði verið rétt staðið að kauptilboði fimm aðila á hlutafjáreign sjóðsins í Meitlinum. Óskað er eftir því af hálfu starfsfólksins að hluthöfum og starfsmönnum verði aftur gefinn kostur á að nýta sér lagalegan forkaupsrétt að téðu hlutafé í Meitlinum. Þá kemur fram í bréfi starfsfólksins ótti við það að sameining Meitilsins í Þorlákshöfn og Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum leiði af sér óöryggi í atvinnu og búsetu í Þorlákshöfn, eða eins og segir í bréfi starfsfólksins, með leyfi forseta: ,,.... með afsali dýrmætra aflaheimilda sem félaginu hafa áunnist með útgerð í gegnum árin fyrir atbeina starfsmanna sinna við sjómennsku og fiskvinnslu.``

Málið er í raun þríþætt. Í fyrsta lagi málið sem varðaði Þróunarsjóð sjávarútvegsins sem nú hefur skipt um skoðun þar sem komið hefur í ljós við nánari athugun að það var handvömm þegar stjórnarmönnum var boðinn forkaupsréttur að eignarhlut í Meitlinum og Búlandstindi. Samt virðist vanta samræmi hjá ríkisvaldinu í þessum efnum því til að mynda var stjórnarmönnum Lyfjaverslunar ríkisins boðinn forkaupsréttur að hlutabréfum þegar það fyrirtæki var selt. Í öðru lagi er um að ræða ótta við sameiningu Meitilsins og Vinnslustöðvarinnar með tilliti til atvinnuöryggis. Og í þriðja lagi vaxandi tortryggni vegna ýmissa þátta í fiskveiðistjórnunarkerfinu sem mikið er deilt um og á við um land allt þar sem gífurlegir hagsmunir eru í húfi.

Sameining fyrirtækja vítt og breitt um landið á undanförnum missirum hefur styrkt þau í sessi í mikilli samkeppni en eftir stendur að oft er grunnt á tortryggni og óvissu hjá landverkafólki og sjómönnum varðandi atvinnuöryggi. Þess vegna er mjög slæmt að upp skuli koma vandamál eins og gerst hefur hjá Þróunarsjóði sjávarútvegsins því mistökin hafa leitt til mikils ruglings þar sem ýmsum málum er blandað saman.

Í viljayfirlýsingu stjórnar Vinnslustöðvarinnar og Meitilsins frá 30. sept. sl. er lögð áhersla á að með sameiningunni sé verið að auka arðsemi rekstrareininga og ná betri árangri í veiðum og vinnslu ásamt því að auka framleiðslu á fullunnum afurðum og að stefnt sé að því við sameininguna að ekki verði fækkað störfum í vinnslu hvorki í Vestmannaeyjum né í Þorlákshöfn. Þá hafa fulltrúar VÍS, SO og ÍS í stjórn Meitilsins margítrekað að sameinað fyrirtæki muni tryggja jafnræði á báðum vinnslustöðunum og félagsleg skylda í þeim efnum fari ekkert á milli mála.

Aðalvandi Meitilsins á þessu ári hefur verið hráefnisskortur en ekki er langt síðan Meitillinn fór í gegnum niðurfærslu á skuldum vegna slæmrar stöðu. Hins vegar er það sjónarmið forsvarsmanna sameiningarinnar að auka vinnslu í Þorlákshöfn um 1.200 tonn af karfa umfram það magn sem þegar hefur verið unnið þar á ári. En þessi 1.200 tonn eru sá karfaafli sem vinnslustöðin hefur hingað til flutt út af óunnum karfa á ári. 1.200 tonna aukning þýðir um 40 daga vinnslu í húsi Meitilsins. Einnig er stefnt að því að sögn forsvarsmanna fyrirtækjanna að vinna í sameinuðu fyrirtæki ríflega 1.200 tonn af fiski sem hefur verið seldur árlega á mörkuðum innan lands. Talið er að með aukinni vinnslu í Þorlákshöfn megi auka veltu úr 500 í 700 millj. kr. eða ná um 4% framleiðniaukningu.

Talsmenn fyrirtækjanna segja augljóst að sameining fyrirtækjanna og sérvinnsla muni styrkja atvinnulífið, bæði í Þorlákshöfn og í Vestmannaeyjum, fyrst og fremst á kostnað atvinnulífs í Bremerhaven eða skapa um 80 daga á ári í vinnslu með 2.500 tonn fyrir 70 starfsmenn. Markmið sameiningarmanna er að þeirra sögn að byggja upp stórt og öflugt sunnlenskt sjávarútvegsfyrirtæki sem geti keppt við þá bestu í greininni og ef tekið er dæmi um áætlun sameinaðs fyrirtækis þá er stefnt að því að vinna um 2.000 tonn af úthafskarfa næsta vor en það skapar 150 manns vinnu í þrjá mánuði í landi og 30 mönnum á sjó á sama tíma.

Spurning er, hæstv. sjútvrh.: Hvernig stendur á því að svona hringlandaháttur kemur upp hjá Þróunarsjóði sjávarútvegsins, hringlandaháttur sem hefur skapað flókið vandamál og mikla tortryggni þar sem menn, hvorum megin borðsins sem þeir sitja, eru að freista þess að ná árangri sem er ásættanlegur fyrir sem flesta er hagsmuna eiga að gæta?