Málefni Þróunarsjóðs og fiskvinnslufyrirtækja

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 16:09:11 (1643)

1996-12-02 16:09:11# 121. lþ. 32.96 fundur 113#B málefni Þróunarsjóðs og fiskvinnslufyrirtækja# (umræður utan dagskrár), GÁ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[16:09]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Kannski er þessi utandagskrárumræða nokkuð sérstök hér á hinu háa Alþingi. Maður áttar sig ekki alveg á um hvað hún snýst. Ég hygg að flestum sé það þó ljóst að sala hlutabréfa Þróunarsjóðs og síðan sameiningin á þessum miklu fyrirtækjum eru tvö óskyld mál. Ég vil leggja áherslu á það hér að ég tel mikilvægt að allri óvissu í þessu máli sé eytt. Það verða stjórnendur og eigendur Vinnslustöðvarinnar og Meitilsins að gera með starfsfólki sínu. Miklar breytingar eru að eiga sér stað í íslenskum sjávarútvegi og ég verð að trúa því að forráðamenn þessa nýja sameinaða fyrirtækis meini það sem þeir segja og standi við það.

Í bréfi sem mér hefur borist segir m.a., með leyfi forseta:

,,Staðreyndin er sú að sameining félaganna mun styrkja atvinnulíf í Eyjum sem og Þorlákshöfn á kostnað atvinnulífs í Bremerhaven. Ætlunin er að auka vinnslu á bolfiski í húsunum tveimur um sem nemur 2.500 tonnum á bolfiski eða um 80 vinnsludaga á ári miðað við um 70 manns í vinnu.``

Þar kemur líka fram að ekki standi til að flytja kvótann sem er í Þorlákshöfn til Vestmannaeyja. Hann verður áfram skráður á staðnum og það tel ég mikilvægt að verði staðið við. Hinu gerum við okkur svo grein fyrir að breytingin í sjávarútveginum er að verða með þeim hætti að stærri og færri fyrirtæki takast á og eigast við á hlutabréfamarkaði, safna almenningsfé til að styrkja sig, og þetta mikla fyrirtæki verður eitt af sterkari fyrirtækjum landsins á þeim markaði. Ég vona að þetta muni styrkja atvinnulíf á Suðurlandi --- og ég veit að það mun gera það. En ég legg áherslu á að það verður að vinna málið innan frá með starfsfólki fyrirtækjanna og eyða allri óvissu.