Málefni Þróunarsjóðs og fiskvinnslufyrirtækja

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 16:12:03 (1644)

1996-12-02 16:12:03# 121. lþ. 32.96 fundur 113#B málefni Þróunarsjóðs og fiskvinnslufyrirtækja# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[16:12]

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svör hans sem undirstrikuðu mikilvægi þess að þessu máli verði lokið hið fyrsta og að sem mest sátt náist um það.

Hv. þm. Guðni Ágústsson sagðist ekki skilja alveg um hvað þessi umræða snerist. Umræðan snýst fyrst og fremst um óvissu fiskverkafólks, óvissu um atvinnuöryggi. Óvissa er vondur hlutur, hvort sem hún kann að vera byggð á misskilningi eða rökum, um það ætla ég ekki að dæma en óvissan er slæm. Á því byggist þessi umræða.

Þegar þorri starfsfólks skrifar undir áskorun eins og send var til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins þá þarf að tala um það og taka á því. Það hefur Þróunarsjóðurinn gert fyrir sitt leyti. Hann hefur skipt um skoðun og hlýtur að fara þar að lögum. Til þess er ætlast að umræða sem þessi hnykki á því að menn verði að fara að lögum. Hún snýst í öðru lagi um þann þáttinn sem víkur að Þróunarsjóðnum, sölu hlutabréfa og nú á það deilumál að vera úr sögunni, a.m.k. lagalega séð.

Þetta er spurning um viðkvæmt hagsmunamál, um atvinnu og öryggi og stöðu byggða. Það verður að taka fullt tillit til þeirra efasemda sem uppi eru og freista þess að eyða misskilningi eða tortryggni eða misbeitingu ef hún er. Spurningin er um jafnræði, að menn nái jafnræði í slíkum hlutum, og þá er ekkert vafamál að það mun skila árangri. Víst er spennandi verkefni að styrkja atvinnu og uppbyggingu á þeim svæðum sem um er talað, bæði í Þorlákshöfn og í Vestmannaeyjum. Hvort eða hvernig það er staðfest, með ákveðnum samningum, ákveðnum yfirlýsingum sem eru til á blaði hjá viðkomandi aðilum, það er þeirra mál. En það er engin spurning að það skiptir miklu máli að gengið sé til verka sem fyrst og að óörygginu sé eytt.