Staða garðyrkjunnar

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 16:38:30 (1646)

1996-12-02 16:38:30# 121. lþ. 32.97 fundur 114#B staða garðyrkjunnar# (umræður utan dagskrár), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[16:38]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst þakka hv. málshefjanda, hv. þm. Ingibjörgu Sigmundsdóttur fyrir að taka til umræðu málefni, stöðu og starfsskilyrði garðyrkjunnar. Það gefur mér kærkomið tækifæri til að segja ofurlítið frá því í framhjáhlaupi að fyrir rétt einu ári skipaði ég nefnd til að skoða þessi starfsskilyrði sérstaklega og skilaði sú nefnd af sér snemma á þessu ári og síðan höfum við, eins og kom fram í máli hv. málshefjanda, reynt að vinna að ýmsum þáttum sem komu fram og bent var á í skýrslunni að nauðsynlegt væri að taka á.

Mig langar einnig að segja að sú neikvæða umræða sem hv. þm. nefndi um málefni garðyrkjunnar er a.m.k. ekki komin úr landbrn. Það er alveg skýrt þannig að ég tel ekki að það hafi verið sérstök gagnrýni á mig eða ráðuneytið sem hefur ef til vill orðið kveikjan að þessari umræðu hjá hv. málshefjanda. Við höfum þvert á móti reynt að hafa þar uppi ýmsar aðgerðir til að styrkja stöðu þessarar greinar sem hefur kannski staðið sig hvað best hvað varðar sjálfstæði í landbúnaðinum að standa á eigin fótum og glíma við það að sæta og sætta sig við þær aðstæður sem markaðurinn hefur skapað og gefið á hverjum tíma.

Hvað viðvíkur raforkuverðinu þá höfum við átt í viðræðum við iðnrn. og málsaðila aðra á þessu ári. Fyrir nokkru var beðið um tilnefningar í sérstaka nefnd til að fjalla um þau mál frekar í framhaldi af ábendingum í skýrslunni. Tilnefningar voru reyndar að berast fram eftir sumri og sú seinasta nýlega eftir að gengið var eftir svari. Viðræður hafa þrátt fyrir þetta verið í gangi. Ég er um þessar mundir að skipa nefndina þar eð fulltilnefnt er í hana nú. Þeir sem munu sitja í henni eru Ólafur Friðriksson, deildarstjóri í landbrn., sem verður formaður, Benedikt Árnason frá iðnrn., Guðmundur Guðmundsson, deildarstjóri hjá Rarik, og Elías B. Elíasson frá Landsvirkjun. Þetta eru þeir aðilar sem koma að málinu. Það sem ég hef lagt fyrir þá að skoða sérstaklega eru áframhaldandi kjör eftir að umfram orkuafsláttur fellur úr gildi í árslok 1997, hvernig hægt sé að fækka þessum svokölluðu stýritímum eða roftímum sem hv. málshefjandi talaði um sérstaklega og/eða lækka verð til þeirra meðan á stýringu stendur. Vegna þeirra aðstæðna sem nú eru að skapast, þegar umframorka verður minni, kannski engin, í kerfinu verða kannaðir möguleikar á að breyta sölufyrirkomulagi á raforku til garðyrkjunnar með það að markmiði að aðlaga eftirspurn eftir framboði eftir því sem kostur er svo og að yfirfara aðra þá þætti sem leitt geta til betri nýtingar og lækkunar á raforkuverði til garðyrkju. Þetta mál er í vinnslu hjá okkur þó kannski sé ekki mögulegt að svara á þessu stigi hvað út úr því kunni að koma en það er fullur vilji hjá ráðuneytinu til að fylgja því eftir.

Um starfsskilyrðin er fyrst að segja að í gangi er í ráðuneytinu vinna við að endurskoða sjóðagjöldin svokölluðu. Sjóðagjöldin eru eitt af því sem garðyrkjubændur hafa nokkuð kvartað undan. Í skýrslu starfsskilyrðanefndar kemur fram að misvel hefur gengið að innheimta þessi gjöld og sérstaklega erfitt í þessum svokallaða græna geira þannig að verið er að yfirfara það mál. Ég vona að áður en langt um líður komi tillögur frá þessum starfshópi um gjörbreytt skipulag um sjóðagjöldin. Jafnframt er á borðum hjá mér nýtt frv. um Stofnlánadeild landbúnaðarins þar sem gert er ráð fyrir því að lækka sjóðagjöld til þeirrar starfsemi um helming eða úr 2% í 1% en garðyrkjubændur hafa m.a. lagt mikla áherslu á það.

Ég veit ekki hvort hv. málshefjandi átti einnig við GATT-málið af því talað er um það í starfsskilyrðanefndinni að ekki verði á þessu stigi a.m.k. horfið frá þeirri vernd sem GATT-fyrirkomulagið gerir ráð fyrir og engar hugmyndir eru uppi um það hjá mér að fara fram með neina lagabreytingu á því. Ég vil hins vegar nefna að nokkurt svigrúm er í tollalögunum og rúmar heimildir sem hægt er að nýta til að reyna að draga úr verðsveiflum og það höfum við reynt að gera varðandi verðlagninguna og beitingar verndartollanna.

Tíminn er því miður að hlaupa frá mér. Ég á enn eftir að svara mörgu af því sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda eins og t.d. um rannsóknirnar og leiðbeiningarnar. Ég vil segja í örstuttu máli að vinna er í fullum gangi hjá okkur að því að breyta skipulagi hvað varðar Garðyrkjuskólann. Það verður sett reglugerð um starfsemi hans. Það verður sett skólanefnd yfir skólann og samráð er í gangi við Rannsóknastofnun landbúnaðarins og tilraunaráð eða fagráð garðyrkjunnar um það hvernig staðið verður að uppbyggingu þjónustunnar þar. Ég hef kannski möguleika á því, hæstv. forseti, að koma aðeins að því aftur í síðari ræðutíma mínum hér.