Staða garðyrkjunnar

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 16:49:19 (1649)

1996-12-02 16:49:19# 121. lþ. 32.97 fundur 114#B staða garðyrkjunnar# (umræður utan dagskrár), ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[16:49]

Árni Johnsen:

Herra forseti. Garðyrkjan er eitthvert vistvænasta stóriðjuver landsins. Það eru 130--140 garðyrkjubændur í landinu og þeir veita atvinnu rétt tæplega þúsund manns þannig að hér er um mikilvæga atvinnugrein að ræða sem þarf að huga vel að.

Það er svo að garðyrkjubændur hafa barist hetjulegri baráttu á undanförnum árum við erfiðar aðstæður og það verður líka að segjast að sú barátta hefur náð verulegum árangri því að umhverfisstaða greinarinnar er mun betri í dag heldur en hún var fyrir fáum árum. Þó er margt enn óunnið sem bæta þarf úr og þar brennur mest á raforkuverðinu. Lækkun raforkuverðsins er nánast lykillinn að vænlegri framtíð garðyrkjunnar á Íslandi. Eins og kom fram hjá hæstv. landbrh. er unnið að skoðun á þessum málum, til að mynda hvernig má ganga fram með lausn á umframorku þegar samningurinn sem nú er í gildi við Landsvirkjun gengur yfir á næsta ári.

Það verður líka að segjast eins og er að eitt af því sem áunnist hefur er að Rarik hefur sýnt miklu eðlilegri samskipti og viðbrögð gagnvart garðyrkjunni nú á síðustu missirum en um langan tíma áður. Þannig hefur Rarik sagt sem svo að það skipti máli að hinir litlu kaupendur fái líka þjónustu en ekki bara hinir stóru. Allt hjálpast þetta að þannig að það er margt sem hefur beinst í rétta átt, afnám ýmissa gjalda í garðyrkjunni og nokkuð haganlegra fyrirkomulag í raforkunni en eins og ég sagði, grundvallaratriðið er lækkun raforkunnar.

Það hefur verið fjárfesting í landinu upp á rétt um 2,5 milljarða í garðyrkju og greinin veltir um 1,3 milljörðum á ári, 1.350 millj. kr. ef ég man rétt. Í þessum efnum verðum við að vera vel á verði, huga að. Það verður vikið að ræktun og útboðum t.d. trjáplantna og ég bendi á að ágætis fyrirtæki á Egilsstöðum, Barri, er að meiri hluta í eigu ríkissjóðs en veitir einkaaðilum mikla samkeppni. Þar þarf líka að huga að. Af hverju ekki að selja Barra til einkaaðila sem eru mjög sterkir og dugmiklir um allt land í greininni?