Stefnumörkun í heilbrigðismálum

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 17:28:48 (1655)

1996-12-02 17:28:48# 121. lþ. 32.4 fundur 114. mál: #A stefnumörkun í heilbrigðismálum# þál., ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[17:28]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að mæla fyrir þessu brýna máli sem allur þingflokkur jafnaðarmanna stendur að. Heilbrigðisþjónustan er eins og við vitum einn veigamesti hornsteinninn í velferðarkerfi okkar. Við vitum líka að gæði hennar hér á landi hafa verið að þróast í átt að því besta sem gerist hjá ríkustu þjóðum heims. Ísland hefur skipað 8. sæti þegar gæði heilbrigðisþjónustunnar eru metin á mælistiku OECD og það er athyglisverður árangur, einkum þegar skoðað er að við höfum ekki varið meira fjármagni til heilbrigðisþjónustunnar en nágrannaþjóðir okkar, sérstaklega á Norðurlöndunum, og við höldum samt forskoti okkar langt umfram þær.

Það er mjög mikilvægt að móta stefnu sem hefur það að leiðarljósi að allir landsmenn eigi jafnan aðgang að bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á á hverjum tíma. Við vitum að vegna þrenginga í þjóðarbúinu á undanförnum árum og vegna kostnaðaraukningar í heilbrigðisþjónustunni hefur verið nauðsynlegt að huga alvarlega að kostnaði og hagkvæmni í heilbrigðisþjónustu landsmanna. En það er mjög mikilvægt ef við ætlum að bæta heilbrigðisþjónustu okkar á sama tíma og kostnaði er haldið í skefjum, að mörkuð sé skýr stefna um hvert við ætlum að halda og hvernig við viljum sjá heilbrigðisþjónustu okkar best borgið. Það þarf að móta stefnuna til skemmri og lengri tíma þannig að enn betur takist til við nýtingu fjármuna sem þessi málaflokkur tekur til sín. Mannauð, þekkingu og tæknigetu heilbrigðisþjónustunnar þarf að virkja þannig að sjónarmið hagkvæmni og skynsemi ráði ferðinni í áframhaldandi uppbyggingu heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn.

Virðulegur forseti. Það verður að huga að því að á sama tíma og við setjum okkur markmið um aukin afköst og skilvirkni í heilbrigðisþjónustunni verður að tryggja gæði hennar með hagsmuni sjúklinganna að leiðarljósi. Sérhagsmunir byggðarlaga og einkaaðila þurfa að víkja fyrir sameiginlegum hag allra landsmanna.

Allt of oft hefur umræðan um heilbrigðismál verið dregin niður í kapp á milli kjördæma án þess að hlutlaus úttekt fái að ráða uppbyggingu í heilbrigðismálum sem og að umræðan um gæði þeirrar þjónustu sem verið er að veita á hverjum tíma sé skilgreind. Starfsmenn í heilbrigðisþjónustunni eru oft gerðir tortryggilegir sem hagsmunagæsluaðilar sjálfra sín í stað þess að líta á þá sem það sem þeir í raun og sanni eru, réttindagæslumenn sjúklinga og aðstandenda þeirra.

Ef litið er til eins af stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík, Landspítalans, og skoðað hvaðan sjúklingar þess í raun koma þá sést auðvitað skýrt að þetta er í raun og sann sjúkrahús allra landsmanna og það þarf að njóta sannmælis sem slíkt. Rétt rúmlega 50% allra sjúklinga sem þangað koma til meðferðar eru Reykvíkingar. Aðrir sjúklingar koma úr öllum öðrum kjördæmum landsins og í mjög líku hlutfalli og búsetuskipting landsmanna.

Virðulegi forseti. Okkur er öllum ljóst að heilbrigðisþjónustan hér á landi kostar verulega fjármuni. Opinber þjónusta kostar nú um 31 milljarð kr. Þessi kostnaður skiptist á 267 þús. íbúa landsins þannig að segja má að kostnaðurinn sé um 116 þús. kr. á hvern íbúa. Þetta eru vissulega miklir fjármunir og því mikilvægt að skoða gaumgæfilega hvernig við verjum þeim. En það þarf að gera án þess að höfuðborg og landsbyggð sé att saman í kappi um takmarkað fé. Umræðan þarf að grundvallast á skýru og vel skilgreindu hlutverki sjúkrastofna, aðgengi fólks að nauðsynlegri þjónustu, m.a. bráðaþjónustu sem þarf að vera til staðar í hinum ýmsu byggðarlögum og gæðum þjónustunnar ekki síst.

Virðulegi forseti. Ég veit að mér er ætlaður takmarkaður tími við þessa umræðu en ég hefði gjarnan viljað staldra við eitt atriði til viðbótar því sem hér hefur verið tæpt á í þeirri stefnumótunartillögu sem hér hefur verið mælt fyrir og það eru réttindi sjúklinga. Miklar vonir voru bundnar við það að nefnd sem vann á vegum heilbrrn. á sl. ári skilaði frv. til hins háa Alþingis um raunhæfar réttarbætur á stöðu sjúklinga hér á landi. En eins og við vitum flest sem hér erum olli þetta frv. þó nokkrum vonbrigðum. Að mati þeirra sem best hafa um það fjallað gekk það ekki nógu langt til að tryggja réttindi sjúklinga. Mér finnst veruleg ástæða til að endurtaka spurningar sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir beindi til heilbrrh. og spyrja: Hvað líður því að þetta frv. komi aftur til meðferðar Alþingis og er það hennar vilji að taka þeim ábendingum sem fram hafa verið bornar um það hvernig væri hægt að tryggja enn frekar réttindi sjúklinga? Þá vil ég staldra við réttindi sjúklinga til þess að njóta þjónustu heilbrigðisstofnana innan ákveðinna tímamarka á sama hátt og okkar helstu nágrannaþjóðir hafa gert. Þær hafa skilgreint þennan rétt sjúklinga.

Þá langar mig fyrst til vitna til Noregs sem hefur nýlega sett sér skýrari viðmið. Þar í landi á sjúklingur rétt á því að fá meðferð við bráðasjúkdómi innan þriggja mánaða frá því að hann er greindur með þennan sjúkdóm. Svipaðar viðmiðanir hafa verið settar í öðrum löndum, þar á meðal í Bretlandi og Danmörku og það hlýtur að vera nauðsynlegt að við horfum svona til þessara réttinda sjúklinga því okkur öllum er kunnugt að biðlistarnir sem hafa skapast á stóru sjúkrahúsunum hafa ekki sparað neinar fjárhæðir, þvert á móti. Það er mat manna að þeir hafi kostað meira fé en þeir hafa sparað. Biðlistar kosta sjúklingana ómæld óþægindi og ómældar fjárupphæðir. Þess eru dæmi að fólk hafi hreinlega misst aleigu sína í bið eftir nauðsynlegri læknisþjónustu. Þeir kosta þjóðfélagið mikla fjármuni og þeir kosta atvinnulífið mikla fjármuni.

Því spyr ég: Ætlar hæstv. heilbrrh. að tryggja það með þessu nýja frv., sem vonandi verður aftur til meðferðar hér í Alþingi í vetur, að biðtími sjúklinga eftir þjónustu, hámarksbiðtími eftir þjónustu verði settur.

Það væri vert að staldra við mörg fleiri atriði í þessari þáltill. til stefnumörkunar sem hér hefur mælt fyrir en tími minn leyfir það ekki að sinni. En að lokum held ég að það verði þó að staldra við tvö til þrjú atriði. Það sem mig langar til að gera hér að mínum lokaorðum er að ég vona að það verði vilji Alþingis og hæstv. heilbrrh. að tryggja það enn skýrar en gert hefur verið að sjúklingar njóti þjónustu innan þeirra tímamarka sem við þurfum að setja okkur á réttum stöðum við þær bestu aðstæður sem völ er á á hverjum tíma.

Barnaspítali hefur verið mjög til umræðu í þjóðfélaginu og það hefur dregist úr hófi að hann rísi. Þetta hefur verið talið forgangsmál af þeim sem fjalla um réttindi veikra barna. Því er það mjög mikið kappsmál foreldrum og börnum þeirra að þessi brýna sjúkrastofnun rísi hið fyrsta.

Ég vil að lokum beina þeirri spurningu til hæstv. heilbrrh., hvort við megum vænta þess að barnaspítali rísi innan tíðar.