Stefnumörkun í heilbrigðismálum

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 17:37:23 (1656)

1996-12-02 17:37:23# 121. lþ. 32.4 fundur 114. mál: #A stefnumörkun í heilbrigðismálum# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[17:37]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég kem hér upp til að lýsa stuðningi við þessa ágætu tillögu til þingsályktunar sem gervallur þingflokkur jafnaðarmanna flytur. Það er sérstaklega einn hluti hennar sem ég vil ræða sérstaklega. Það er sá þáttur sem lýtur að uppbyggingu heilsugæslunnar. Ég er þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að hert sé á því að heilsugæslan verði í framtíðinni grunneining í heilbrigðisþjónustu hér á landi. Ég held að það sé nauðsynlegt að menn skyggnist aðeins yfir farinn veg og reyni að sjá hvað hefur farið úrskeiðis frá því Alþingi markaði stefnu í þessum málum árið 1991 og hvernig megi bæta. Það er ekki síður nauðsynlegt að við horfum yfir farinn veg og sjáum t.d. að verkfallinu tókst mjög bærilega að grafa verulega undan heilsugæslunni í landinu. Það verkfall, sem stóð því miður í einar fjórar til fimm vikur, var fyrst og fremst vegna þess að menn höfðu ekki nægilega skýra stefnu í málefnum heilsugæslunnar. Það er nefnilega þannig að það er eins og við Íslendingar séum iðnir við að samþykkja og semja lög sem við förum síðan ekkert eftir. Lögin eru oft og tíðum í okkar augum einhvers konar leiðarvísir um það hvernig hlutirnir eigi að vera en við förum ekki nægilega mikið eftir þeim.

Þess sér auðvitað stað í heilsugæslunni. Ég legg áherslu á það, herra forseti, að eitt af því sem við teljum mjög mikilvægt að verði tekið í framtíðinni miklu fastari tökum en hingað til er auðvitað forvarnastarfið. Í gildandi lögum er talað um að eitt af því sem heilsugæslan á að sinna séu forvarnir og sennilega hefur enginn núlifandi stjórnmálamaður ítrekað jafnmikið gildi forvarna og einmitt hæstv. heilbrrh. og það að makleikum. Hins vegar hefur heilsugæslan, þrátt fyrir hinn skýra lagabókstaf í þessum efnum, ekki haft burði til að sinna forvörnum, hún hefur ekki fengið fjármagn til þess. Það er því alveg nauðsynlegt að þegar menn leggjast yfir málin og marka stefnu til framtíðar þá verði líka hugað að því að útvega nægilegt fjármagn til þess að framfylgja stefnunni.

Verkfallið sem háð var var með vissum hætti runnið undan rifjum stjórnvalda. Ég segi þetta, herra forseti, vegna þess að það var ljóst að stjórnvöld kusu að fylgja ekki þeim lögum sem í gildi voru. Það sköpuðust sérstakar aðstæður sérstaklega hér í Reykjavík þar sem annars vegar fjölgaði verulega ungum læknismenntuðum einstaklingum, sérfræðingum, sem ekki gátu eins og áður fundið starfa við sitt hæfi innan sjúkrahúsanna og hins vegar gerðist það að uppbygging heilsugæslunnar fylgdi ekki eftir þróun byggðar hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Það skapaði þetta undarlega ástand sem leiddi til verkfalls vegna þess að verkaskipting var óskýr milli annars vegar heilsugæslunnar og hins vegar sérfræðinganna sem í æ ríkari mæli hafa reynt að hasla sér völl á lögskipuðu verksviði heilsugæslunnar. Það er nauðsynlegt að það ríki pólitísk sátt um heilsugæsluna í framtíðinni. Til að svo sé þá held ég að það sé mjög mikilvægt að lögð verði fram áætlun um hvernig eigi að byggja upp heilsugæsluna sérstaklega hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Ég tel að til þessa hafi með góðum rökum verið veitt mjög mikið fjármagn til að byggja upp heilsugæslustöðvar úti á landsbyggðinni. Fyrir því liggja byggðapólitísk rök sem ég sem Reykvíkingur hef sætt mig við. En nú tel ég að það sé mjög mikilvægt að menn ráðist í að byggja upp heilsugæsluna með viðunandi hætti hér á Reykjavíkursvæðinu.

Fyrr á þessu ári var kynnt áætlun sem a.m.k. gagnvart heilbrn. þingsins var lögð fram með þeim hætti að litið var svo á að það væri um að ræða samning milli heilbrrn. annars vegar og heilsugæslunnar hins vegar. Þessi áætlun laut einmitt að uppbyggingu heilsugæslunnar hér í Reykjavík. Og ég verð að segja sem Reykvíkingur að hún hljómaði eins og fegursti söngur í mínum eyrum. Samkvæmt henni átti að byggja nokkrar nýjar heilsugæslustöðvar á næstu tíu árum, það átti að stækka nokkrar stöðvar til viðbótar og það átti jafnframt að fjölga stöðugildum sem svaraði 25 nýjum heilsugæslulæknum á þeim tíu árum sem áætlunin náði til. Þessu var almennt fagnað. Þessu var afskaplega vel tekið.

En nú hefur Læknafélag Íslands mótmælt þessum samningi og það er mjög nauðsynlegt fyrst hæstv. ráðherra er hér viðstödd umræðuna að hún gefi yfirlýsingu um það hvort þessi samningur sé í gildi eða eigum við Reykvíkingar enn og aftur að velkjast í vafa um það með hvaða hætti heilsugæslan í Reykjavík þróast á næstu árum. Það eru að byggjast upp ný stór hverfi þar sem heilsugæslan er mjög vanbúin og til þess að það skapist sátt um heilsugæsluna þá er nauðsynlegt að þetta liggi fyrir. Ég vil líka, herra forseti, segja það skýrt og skorinort, eins og ég er viss um að hv. 1. flm. þessarar tillögu hefur ítrekað í málafylgju sinni í upphafi, að það er skoðun þingflokks jafnaðarmanna að heilsugæslan eigi í framtíðinni að vera á verksviði sveitarfélaganna. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að þeirri stefnu verði hrundið í framkvæmd hið fyrsta. Við erum þeirrar skoðunar að það eigi að reyna að tvinna betur saman heilsugæslustöðvarnar og hjúkrunarheimilin. Við megum heldur ekki gleyma því að tengt þessu og raunar vaxandi þáttur sem sveitarfélögin hafa á hendi sinni í dag er heimilishjálpin þó í flestum tilvikum annist heilsugæslan heimahjúkrunina. Það er nauðsynlegt og farsælt, held ég, að allir þessir þættir séu undir sömu stjórn, á einni hendi til að fá sem besta yfirsýn yfir reksturinn og ná fram sem mestri hagræðingu. Og það er alveg ljóst að sú hönd á að vera sveitarfélaganna. Þetta er stefna sem ég hygg að engin stjórnmálahreyfing hafi lagt fram jafnskýrt og Alþfl. og jafnaðarmenn. Ég tel að þetta sé eitt af því sem er hvað mikilvægast í framtíðinni. Þess vegna spyr ég hæstv. heilbrrh. einnig: Hvaða afstöðu hefur hún til þessa? Telur hún að það sé farsælt fyrir heilsugæsluna í landinu að hún verði færð yfir til sveitarfélaganna? Ef hæstv. ráðherra er annarrar skoðunar þá þætti mér vænt um ef hún gæti fært rök fyrir því.