Stefnumörkun í heilbrigðismálum

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 18:14:25 (1666)

1996-12-02 18:14:25# 121. lþ. 32.4 fundur 114. mál: #A stefnumörkun í heilbrigðismálum# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[18:14]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér heyrist að það liggi þannig að við getum að mestu leyti verið sammála um þessi fallegu grundvallarmarkmið sem þarna voru lesin upp. Í raun saknaði ég aðeins eins úr þessum upplestri eða þessari tillögu og það var spurningin um tilvísunarskyldu, sem menn verða líka að fara yfir í þessu sambandi, eða tilvísunarkerfi eða kannski öllu heldur með hvaða hætti menn ætla að efla þjónustuna á grunnstigi eða undirstöðustigi heilsugæslunnar þannig að sem allra mest af vandamálunum séu leyst þar. Það er bjargföst sannfæring mín að þannig verði heilsugæslan best og ódýrust. Ég hef þess vegna alla tíð, jafnvel þegar mestir stormar stóðu hér um hv. þm. Sighvat Björgvinsson, staðið með honum í því að ég vildi sjá einhvers konar kerfi í gangi sem væri hvetjandi í þessu sambandi, sem beindi viðskiptum sjúklinga eða landsmanna í fyrstu umferð inn á undirstöðuþrep þjónustunnar, heilsugæslukerfið, og þar væri reynt að sortera málin upp og eftir atvikum vísa þeim áfram innan kerfisins. En því miður var ekkert um þetta í upplestrinum hjá hv. þm. og fróðlegt væri að heyra þá í frekari umræðum um þessi mál hvar afstaða Alþfl. liggur í þeim efnum nú.