Stefnumörkun í heilbrigðismálum

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 18:21:56 (1670)

1996-12-02 18:21:56# 121. lþ. 32.4 fundur 114. mál: #A stefnumörkun í heilbrigðismálum# þál., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[18:21]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram þó að mér sé málið skylt að þessi orðaskipti mín við hv. þingmenn Alþfl. og jafnaðarmannaflokksins hafa verið upplýsandi. Til að mynda hefur komið fram í umræðunni að þar á bæ eru menn nú tilbúnir til þess samkvæmt yfirlýsingum hér að endurskoða tvo veigamikla þætti sem flokkurinn tók pólitískar ákvarðanir um á síðasta kjörtímabili, þ.e. annars vegar þjónustugjöldin eða hversu langt eigi að ganga í því. Hv. þm. upplýsti það áðan. Og hins vegar að endurskoða á sama hátt útgjöld heimilanna við tannlæknakostnað. Ég tel þetta markverð tíðindi og verulegan árangur sem orðið hafi af þessari umræðu.