Stefnumörkun í heilbrigðismálum

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 18:31:57 (1672)

1996-12-02 18:31:57# 121. lþ. 32.4 fundur 114. mál: #A stefnumörkun í heilbrigðismálum# þál., ÁÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[18:31]

Ásta B. Þorsteinsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ýmislegt í máli hæstv. heilbrrh. gefur mér tilefni til stutts andsvars. Varðandi tilvísanakerfi og stefnubreytingu Alþfl. í þeim efnum langar mig til þess að upplýsa þingheim og hæstv. heilbrrh. um það að til eru margs konar stýrikerfi á heilbrigðisþjónustunni og aðgengi að henni. Sum lönd hafa farið út í það að hafa sjúkrasamlögin sem þetta stýrikerfi og það leggjum við einmitt til í Alþfl., jafnaðarmannaflokki Íslands. Við leggjum það til í þeim tilgangi að aðgengi fólks að heilbrigðisþjónustunni verði gert betra og að réttur þess verði skilvirkari og við teljum að það geti einmitt náðst fram með því að hér verði innleitt á nýjan leik sjúkrasamlag sem landsmenn greiða til og njóta réttinda óháð efnahag og búsetu.

Fleiri mál væri fróðlegt að staldra við og spyrja nánar út í. Hæstv. heilbrrh. kom inn á biðlista. Við vitum að sumir þeirra hafa lengst verulega. Það hefur ekkert átak verið gert í því að stytta biðlista. Hins vegar hafa sjúkrastofnanir sjálfar, án þess að hafa fengið það neitt leiðrétt eða umbunað, reynt að gera það sem þær geta. Á biðlista eftir hjartaaðgerð eru vissulega ekki nema um 30 manns, en á hinn bóginn má ekki gleyma því að það bíða nokkur hundruð manns eftir hjartaþræðingu sem er oft aðdragandi að hjartaaðgerð. Þá hefur töluvert verið talað um hversu mikið hefur áunnist og verið nefnd Rannsóknastofa í gigtarsjúkdómum sem er vissulega mikill áfangi og ber að fagna því að þar réð ferðinni framsækni þeirra sérfræðinga sem þar koma að málum. Að þeirra frumkvæði og atorku reis þessi glæsilega rannsóknastofa.