Stefnumörkun í heilbrigðismálum

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 18:54:18 (1680)

1996-12-02 18:54:18# 121. lþ. 32.4 fundur 114. mál: #A stefnumörkun í heilbrigðismálum# þál., ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[18:54]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Virðulegi forseti. Það væri freistandi að staldra við nokkur atriði sem fram komu í máli hæstv. ráðherra áðan. Ég mun reyna að tefja þessa umræðu ekki en mig langar samt að taka á örfáum atriðum sem hæstv. ráðherra tæpti á.

Mig langar fyrst að tala um málefni geðsjúkra. Það kom fram í máli ráðherrans að verið væri að vinna að málefnum geðsjúkra. Mér leikur forvitni á að vita hvernig verið er að gera það. Því vildi ég varpa þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort hún telji lagalegum réttindum geðsjúkra og geðfatlaðra á Íslandi ekki nægjanlega vel borgið. Mig langar til að minna á í því samhengi að auðvitað eiga allir landsmenn jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma. Það á við um geðsjúka sem og aðra sjúklinga. Auk þess var árið 1992 lagalega tryggt að þeir sem voru skilgreindir geðfatlaðir fengju ótvíræðan rétt til að njóta þjónustu samkvæmt lögum um málefni fatlaðra. Þá var einmitt lögð sérstök áhersla á að taka þyrfti á í þeirra málum og byggja upp félagslega þjónustu sem tæki við þegar sjúkrahúsdvöl lyki. Nú er það staðreynd að ekki hefur verið lögð nein áhersla á það í fjárlögum fyrir næsta ár að ljúka við þau áform og loforð sem þar voru gefin um að bæta hag geðfatlaðra. Því langar mig til að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort þess sé að vænta að hæstv. heilbr.- og félmrh. hyggist endurskoða fyrri áform sem endurspeglast í fjárlagagerðinni fyrir næsta ár og tryggja betur en nú lífsskilyrði geðfatlaðra. Þetta eru mjög einfaldar spurningar.

Mig langar enn fremur til að staldra við annað. Það eru stóru sjúkrahúsin á höfuðborgarsvæðinu. Legurúmum hefur stórlega fækkað á bráðadeildum sjúkrahúsanna í Reykjavík. Að mati margra hefur þeim fækkað of mikið. Á bráðadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur, lyflækningadeildum hefur rúmum fækkað um 37% og á handlækningadeildum fækkað um 40%. Á Ríkisspítölum hefur sama þróun átt sér stað, en þar hefur t.d. á handlækningasviði rúmum fækkað um rúmlega 25% á undanförnum árum. Þetta tengist ótvírætt umræðunni um réttindi sjúklinga og ég verð að lýsa vonbrigðum mínum með að heyra að hæstv. heilbrrh. hefur ekki trú á því að það megi bæta þjónustu með lagaramma sem skilgreinir skýrt hver réttindi sjúklinga eiga að vera. Það hefur vakið áhyggjur manna að miðað við núverandi ástand og fjárskort, t.d. á stóru sjúkrahúsunum í Reykjavík, sé verið að bjóða hættunni heim og stefna öryggi sjúklinga í hættu. Hraði og álag hefur stöðugt aukist á starfsfólk sjúkrahúsanna og álag á hjúkrunarfræðinga á einstökum deildum er svo mikið að það jaðrar við að vera óforsvaranlegt.

Annað hlýtur að vekja okkur til umhugsunar um réttindi sjúklinga og það eru hinar margumtöluðu gangalagnir. Vegna þessa hve rúmum hefur fækkað stórlega á undanförnum árum er orðið æ algengara að bráðveikir sjúklingar þurfa að vistast á göngum sjúkrahúsanna við alls ófullnægjandi aðstæður. Ég leyfi mér að fullyrða, herra forseti, að þetta er brot á mannréttindasáttmálum sem Ísland hefur undirritað og ég tel líka að við gætum með skýrum lagasetningum um réttindi sjúklinga reynt að koma í veg fyrir slíkt. Því veldur það auðvitað vonbrigðum að heyra að hæstv. heilbrrh. hefur ekki trú á því úrræði að setja lög um réttindi sjúklinga. Ég vil leyfa mér að fullyrða að þar sem það hefur verið gert hefur það skilað sér í ótvíræðum árangri og bættum hag sjúklinga. Ég leyfi mér að nefna, herra forseti, þó svo að hæstv. heilbrrh. sé gengin úr sal --- ég get líka beðið örlítið eftir að hún komi aftur svo hún heyri mál mitt. Ég tel það mikilvægt.

(Forseti (GÁS): Forseti stoppar klukkuna.)

Herra forseti. Þá get ég haldið áfram máli mínu þar sem hæstv. heilbrrh. gengur nú á ný í salinn.

[19:00]

Ég vil staldra enn frekar við lagasetningu um réttindi sjúklinga og taka aftur til umræðu það frv. sem var lagt fyrir Alþingi á sl. ári. Það var vissulega unnið með þátttöku margra aðila og margir hópar sjúklinga komu að málinu einhvern veginn, en því verður ekki neitað að þetta frv. er ekkert annað en endurskilgreining á réttindum sem sjúklingar hafa notið samkvæmt öðrum lagabálkum. Í reynd er það mat margra að jafnvel skerði frv. ef eitthvað er réttindi sjúklinga til að njóta þjónustu á heilbrigðisstofnunum. Ég vil því endurtaka spurningu mína til hæstv. ráðherra, hvort við megum vænta þess að þetta frv. komi aftur til meðferðar í Alþingi í vetur og þá undir breyttum formerkjum og með styrkari réttarstoðum sjúklinga en var í fyrrnefndu frv.

Herra forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við förum að marka heildarstefnu í heilbrigðismálum og að það verði gert þannig að full sátt verði um það verk milli dreifbýlis og þéttbýlis. Á það hefur skort fram að þessu að það ríki full pólitísk sátt og samráð við alla hlutaðeigandi aðila um það hvernig þetta mál verður unnið. Hér er lagt til að unnið verði að merkri stefnumótun og ég vona að hæstv. heilbrrh. taki því vel og láti þessa þáltill. fá viðeigandi meðferð. Ég held að það væri farsælla í stað þess að færa víðtækt vald til heilbrrh. með bandorminum svokallaða þannig að það yrði algerlega háð geðþótta hæstv. ráðherra hvernig á málum verður haldið án nokkurs samráðs við þá sem hlut eiga að máli.