Stefnumörkun í heilbrigðismálum

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 19:13:10 (1686)

1996-12-02 19:13:10# 121. lþ. 32.4 fundur 114. mál: #A stefnumörkun í heilbrigðismálum# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[19:13]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að ég er þrívegis búin að reyna að fá fram afstöðu ráðherrans til tveggja atriða í þessari tillögu sem hér er til umræðu, en það gengur ekki. Ég hlýt að gera núna úrslitatilraun til þess að fá fram skoðanir ráðherrans í fyrsta lagi á því hvort hún telji að setja eigi samræmda opinbera staðla um gæði í heilbrigðisþjónustunni og í öðru lagi á því að mótuð verði samræmd stefna um kaup á nýjum lækningatækjum og lyfjum. Mér finnst ráðherrann ekki hafa svarað þessu þannig að viðunandi sé.

Ég kem aðallega upp til að spyrjast nánar fyrir um áform ráðherrans um barnaspítalann. Mér finnst ekki hægt að ljúka þessari umræðu um heilbrigðismálin þar sem allir eru sammála um að barnaspítalinn sé stærsta framkvæmdin sem eigi að ráðast í á næstunni, án þess að ráðherrann svari því nánar en hún hefur gert. Það er ekki hægt að segja að þetta sé trúverðugt, herra forseti, nema ráðherrann svari því hvernig hún ætlar að tryggja sér heimild á fjárlögum til þess að ráðherrann geti staðið við sín áform. Ráðherrann ræðir um að selja eignir til að fá fjármagn í barnaspítalann. En þarf ráðherrann þá ekki heimild, a.m.k. í 6. gr. fjárlaga --- nú er tækifærið, núna við afgreiðslu fjárlaga, ef áform ráðherrans eiga að ganga eftir á næsta ári --- og líka að tryggja sér að fjármagn fari þá í það með sölu á þessu landi? Ráðherrann tryggir það væntanlega með því að nýta tækifærið nú við afgreiðslu fjárlaga. Annars er ráðherrann bara ekki marktækur í þessu efni. Þess vegna verða það mín lokaorð hér, herra forseti, að reyna að spyrja ráðherrann frekar um þessi áform varðandi barnaspítalann. Og ég er að tala um fjármögnunina, herra forseti, til þess að við getum metið hvort ráðherrann er trúverðugur í sínum málflutningi eða hvort hann sé einungis að gefa væntingar út í þjóðfélagið sem svo verður ekki staðið við.