Alþjóðadagur fatlaðra

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 13:36:36 (1694)

1996-12-03 13:36:36# 121. lþ. 33.91 fundur 124#B alþjóðadagur fatlaðra# (aths. um störf þingsins), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[13:36]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. 9. þm. Reykv. fyrir að vekja athygli á því að í dag er dagur fatlaðra og að þeim tilmælum hefur verið beint til þjóðþinga að ræða málefni þess hóps sem er afar stór og fjölbreyttur. Mér finnst leitt að við skyldum ekki vera meira vakandi yfir þessu en raun ber vitni en við bætum vonandi úr því fljótlega með umræðu.

Mig langar til að minnast á það í þessu samhengi að kannanir á Norðurlöndum hafa sýnt að þeir hópar sem einna helst verða út undan í samfélaginu, hvort sem litið er á menntakerfið, atvinnulífið eða heilbrigðiskerfið, eru aldraðir, fatlaðir og geðsjúkir sem eru greindir þannig í sundur og ég efast ekki um að það sama gildir hér. Það er af nógu að taka og því vil ég taka undir þá ósk að við finnum tíma fyrir umræðu um málefni fatlaðra en jafnframt væri eðlilegt að árlega yrði lögð fram skýrsla um málefni fatlaðra, en ég hygg að síðasta skýrslan hafi komið fram á síðasta vetri.