Alþjóðadagur fatlaðra

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 13:38:00 (1695)

1996-12-03 13:38:00# 121. lþ. 33.91 fundur 124#B alþjóðadagur fatlaðra# (aths. um störf þingsins), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[13:38]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Mér er ánægja að greina frá því að í morgun var samþykkt í ríkisstjórninni að senda til stjórnarflokkanna frv. um breytingu á lögum um málefni fatlaðra. Þetta frv. kemur vonandi til umræðu alveg á næstu dögum og þá gefst út af fyrir sig gott tækifæri til þess að ræða þennan málaflokk. Ég er hins vegar ekkert að færast undan því að ræða þetta utan dagskrár eða efna til umræðu um málið ef hæstv. forseta býður svo við að horfa að það passi inn í dagskrá þingsins sem á þessum tíma eins og menn vita er mjög þétt sett. En ég tel að ástæða sé til að ræða þessi mál og í þessu frv. um málefni fatlaðra er mörkuð sú stefna að málaflokkurinn færist yfir til sveitarfélaganna 1. janúar 1999. Að vísu þarf að undirbúa það mjög vel og ýmislegt að gera áður en af því getur orðið því að ekki taka sveitarfélögin við málaflokknum öðruvísi heldur en samkvæmt samningum og við þurfum að gera ýmislegt áður en af því verður, m.a. að fella saman lögin um málefni fatlaðra og lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga. Verið er að leggja lokahönd á úttekt á málefnum fatlaðra, stöðu málanna hér í Reykjavík og ég vonast eftir að sú skýrsla liggi fyrir áður en þessi umræða færi fram á Alþingi því að á skýrslunni er mikið að græða. Þetta er vönduð úttekt og hugmyndin er að reyna að gera svona úttekt í öðrum kjördæmum landsins á næsta ári þannig að málið liggi ljósar fyrir.

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að vitna til framkvæmdastjóra Öryrkjabandalagsins, Ólafar Ríkharðsdóttur, sem lýsti því yfir í gær að Norðurlöndin væru í fararbroddi í þessum málaflokki. Íslendingar voru að taka við verðlaunum úti í Brussel í gær. Lundarskóli á Akureyri fékk gullverðlaun og silfur kom í hlut Hamrahlíðarskóla.