Niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um raungreinamenntun íslenskra skólabarna

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 13:48:32 (1699)

1996-12-03 13:48:32# 121. lþ. 33.95 fundur 122#B niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um raungreinamenntun íslenskra skólabarna# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[13:48]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. 11. þm. Reykv. fyrir að hefja þessa umræðu um stöðu íslenska skólakerfisins. Á undanförnum árum hefur verið lögð áhersla á að Íslendingar taki í auknum mæli þátt í alþjóðlegum rannsóknum á árangri nemenda. Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála hefur haft veg og vanda af slíkum rannsóknum hér á landi. Nýlega gerði stofnunin opinberar niðurstöður TIMSS-rannsóknarinnar svonefndu sem er fjölþjóðleg rannsókn á námsárangri nemenda í stærðfræði og náttúrufræðigreinum. Niðurstöður þeirrar rannsóknar eru áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga þar sem árangur nemenda hér á landi var ófullnægjandi. Líta ber á niðurstöðurnar af mikilli alvöru, finna skýringar og bregðast rétt við. Gerðar hafa verið fleiri fjölþjóðlegar samanburðarrannsóknir sem Íslendingar hafa tekið þátt í, m.a. tókum við þátt í alþjóðlegri rannsókn á læsi árið 1991. Athugaður var meðalárangur 9 ára og 14 ára barna. Niðurstöðurnar voru þær að íslensk 9 ára börn voru í 8. sæti meðal barna í 27 löndum en 14 ára börn voru í 6. sæti meðal barna í 32 löndum. Af því sjáum við að íslensk börn standa sig vel í læsi og mun betur en í stærðfræði og náttúrugreinum. Því er alls ekki hægt að draga þá ályktun að TIMSS-rannsóknin sýni að íslenskir nemendur standi sig jafnilla í öllum greinum og stærðfræði og náttúruvísindum.

Því miður eru ekki til nægilega viðamiklar upplýsingar um stöðu íslenskra nemenda til að hægt sé að fullyrða um árangur þeirra á öllum sviðum. Því er ekki hægt að svara þeirri spurningu hvort staðan á öðrum sviðum sé líkari lestrargetunni en náttúrufræðigetunni. Þó má telja að staðan í skólakerfinu almennt sé líkari niðurstöðu TIMSS-rannsóknarinnar. Sú ályktun er m.a. dregin af því að engin námsgrein hér á landi hefur haft jafntraustar stoðir og lestrarkennslan.

Mikilvægt er að Íslendingar taki þátt í fleiri alþjóðlegum samanburðarrannsóknum. Á vegum alþjóðlegra samtaka rannsóknastofnana á sviði uppeldis- og menntamála er t.d. fyrirhuguð rannsókn á notkun upplýsingatækni í skólum hjá ólíkum þjóðum. Það er einn af þeim málaflokkum þar sem við einsetjum okkur að standa vel að vígi og því er mikilvægt að við fylgjumst vel með framgangi mála á því sviði.

Ljóst er að kannanir og mat skipta litlu máli ef ekki fylgja leiðir til úrbóta. Á þessu stigi er of fljótt að slá því föstu til hvaða aðgerða þarf að grípa til að bæta stærðfræði- og raungreinaþekkingu íslenskra nemenda. Eftirtalin atriði eru þó meðal þeirra sem nefnd hafa verið sem dæmi um það sem þarf að bæta:

Skoða inntak kennaramenntunar.

Athuga hvort aðstæður hér á landi séu hvetjandi eða letjandi fyrir fagmennsku í störfum kennara.

Lögverndun kennarastarfsins verði sveigjanlegri en nú.

Námsaðgreining verði ríkari, t.d. með auknu vali nemenda þar sem tekið er tillit til getu.

Fyrirkomulag námsbókaútgáfu verði endurmetið.

Þessi atriði og fleiri hafa verið nefnd um úrbætur en ég tel ekki tímabært að tekin verði endanleg afstaða til þeirra. TIMSS-gögnin undirstrika að það eru engin einföld svör þegar t.d. er spurt: Hvernig geta skólar bætt námsárangur nemenda?

Það er ekki fylgni á milli bekkjarstærðar og árangurs svo dæmi sé tekið. Ekki kemur heldur fram skýrt samband eða mynstur í tengslum á milli þess tíma sem varið er til kennslu námsgreina og námsárangurs. Mín niðurstaða er fyrst og fremst sú að áður en endanlegar ályktanir verði dregnar þurfi að greina TIMSS-gögnin betur þannig að þau geti vísað okkur veginn. Í þeim er að finna mun meira af upplýsingum en nú hafa verið gerðar opinberar. Að sögn forsvarsmanna hjá Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála ætti slík greining að geta legið fyrir innan hálfs árs eða níu mánaða ef vel gengur.

Við sitjum þó ekki auðum höndum. Nú þegar er hafin vinna að því á vegum menntmrn. á mörgum sviðum sem eiga að styrkja stöðu íslenskra nemenda. Í fyrsta lagi er hafin endurskoðun á aðalnámskrá grunnskóla og framhaldsskóla en gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki sumarið 1998. Í öðru lagi hafa verið stigin fyrstu skrefin til aukins samræmds námsmats hér á landi. Samræmd könnunarpróf hafa verið tekin upp í 4. og 7. bekk og í nýjum framhaldsskólalögum er kveðið á um samræmd stúdentspróf. Ef þessi vinna hefði ekki verið hafin hefðu niðurstöður TIMSS-rannsóknarinnar kallað á að það gerðist sem fyrst.

Því miður getum við ekki fært íslenska skólakerfið til betri vegar á einni nóttu. Það getur tekið okkur mörg ár að bæta námið þannig að viðunandi sé. Sú staðreynd á þó ekki að draga úr okkur kjark heldur hleypa í okkur krafti til þess að við getum státað okkur af betri niðurstöðum í næstu TIMSS-rannsókn sem ætlunin er að gera eftir fimm eða sex ár. Það verður enn verra fyrir okkur að sitja þá á sama stað eftir að hafa fengið tækifæri til að bæta okkur.