Niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um raungreinamenntun íslenskra skólabarna

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 13:54:02 (1700)

1996-12-03 13:54:02# 121. lþ. 33.95 fundur 122#B niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um raungreinamenntun íslenskra skólabarna# (umræður utan dagskrár), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[13:54]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Umræðan í þjóðfélaginu síðustu vikuna sýnir að sú könnun sem hér er til umræðu er stórmál í augum þjóðarinnar. En því miður reyndist ekki unnt að ræða hana hér í þingsölum fyrr en nú. Það er mjög miður svo og það að umræðunni eru skammtaðar 30 mínútur eða tvær mínútur á mann í stað þess að orðið væri við beiðni minni um tveggja tíma umræðu.

Það gefst ekki tími til þess að fara ofan í hvað er athyglisverðast við niðurstöðurnar en þar vil ég ekki síst benda á með hvaða löndum við lendum í þessum neðstu sætum og þar á ég við hin Norðurlöndin, Bandaríkin og lönd Suður-Evrópu. Hvaða lönd skipa sér í fremstu röð og ekki síst það hvað það eru hlutfallslega fá börn á Íslandi sem fá efstu einkunnir. Það er mjög umhugsunarvert. Þá finnst mér einnig mjög athyglisvert að það kemur ekki fram kynjamunur í stærðfræði, hvorki hér né erlendis og enginn kynjamunur er hér í eðlisfræði og líffræði.

En hvað veldur og hvað ber að gera? Þegar skoðaðar eru rannsóknir á því hvað hefur áhrif á námsárangur þá er yfirleitt bent á niðurstöður sem tengjast nemendunum sjálfum, kennurum þeirra, skólakerfinu í víðri merkingu og þar er meðal annars átt við námskrá, vægi einstakra greina, kennslutíma og gæði kennslugagna. Rannsóknir, vestrænar að vísu, sýna hvorki beint samband á milli námsárangurs og röðun í bekki né hvort í skólastarfinu er lögð meiri áhersla á samvinnu eða samkeppni. Í ljósi þessa er athyglisvert að fylgjast með viðbrögðum þjóðfélagsins við þessum niðurstöðum. Ekki síst viðbrögðum menntmrh. sem virðist telja að röðun í bekki, aukin samkeppni, einkaskólar og það að hætta að kenna kennurum uppeldis- og kennslufræði sé svarið. Það er mikilvægt að allir átti sig á að þessar niðurstöður réttlæta engan veginn að tekin verði upp sú ómannúðlega stefna (Forseti hringir.) í skólamálum sem ráðherra hefur talað fyrir.