Niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um raungreinamenntun íslenskra skólabarna

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 13:58:32 (1702)

1996-12-03 13:58:32# 121. lþ. 33.95 fundur 122#B niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um raungreinamenntun íslenskra skólabarna# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[13:58]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Niðurstöður TIMSS-rannsóknar sem birtist nú á dögunum virðast, svo undarlegt sem það er, koma ýmsum Íslendingum í opna skjöldu. Þó erum við á ákaflega svipuðu róli og þær Norðurlandaþjóðir sem við höfum tekið okkur helst til fyrirmyndar í uppbyggingu námsefnis þó að við verjum margfalt minni peningum en þær til námsefnisgerðar og flestir 13 ára íslenskir nemendur hafi ekki fengið neina kennslu í eðlis- og efnafræði sem þarna var þó verið að prófa og raunar hefur það verið á allra vitorði hér lengi að áhersla á kennslu í raungreinum hefur verið allt of lítil.

Ég held að fáum kennurum komi þessar niðurstöður á óvart. Ég held reyndar að ýmsar aðrar greinar en stærðfræði og náttúrufræði, ef prófaðar væru, gæfu ekki mikið betri niðurstöður og má þar t.d. nefna mannkynssögu og landafræði.

Kennarar hafa um langa hríð bent á að of litlu fé sé varið til skólans á Íslandi og lengst af talað fyrir daufum eyrum. Það hefur lengi verið plagsiður hér á landi að skera niður fé til skólamála þegar vantað hefur upp á jafnvægið í ríkisfjármálum. Kennarar eru líka verr launaðir hér en annars staðar, hafa meiri kennsluskyldu, fjölmennari bekki og gríðarlega yfirvinnu ef þeir ætla að lifa af sínum kennaralaunum. Þetta mikla vinnuálag er svo sem ekki bara á kennurum. Foreldrar vinna líka langan vinnudag og hafa ekkert aflögu til að hjálpa börnum við heimanám, dauðþreyttir á síðkvöldum.

Það er óskandi að niðurstöður þessarar rannsóknar, fyrst þær leggjast svona illa í menn, verði til þess að þeir skilji að til þess að árangur náist í skólastarfi þarf að kosta meiru til skólans en hingað til hefur verið gert hér á landi. Sem betur fer er nú verið að auka skólatímann sérstaklega hjá yngstu nemendunum en það þarf að gera enn betur. Það þarf að skoða vægi milli námsgreina, auka framboð af kennsluefni og launa kennara betur þannig að starfið verði eftirsóknarverðara.