Niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um raungreinamenntun íslenskra skólabarna

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 14:00:51 (1703)

1996-12-03 14:00:51# 121. lþ. 33.95 fundur 122#B niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um raungreinamenntun íslenskra skólabarna# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:00]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hæstv. menntmrh. að hann beindi mjög sjónum að inntaki kennaramenntunar þegar hann reyndi að svara því hvað bæri að gera í þessum málum. Vissulega er það rétt að það þarf að beina sjónum að því hvernig menntun kennara er og hvaða áherslur þar eru lagðar. En þetta mál er svo miklu stærra.

Árið 1974 voru gerðar mjög miklar breytingar á íslensku skólakerfi. Ég hygg að hægt sé að fullyrða að þeim breytingum hafi aldrei verið fylgt eftir sem skyldi, m.a. að fækka í bekkjum og sjá til þess að þeim markmiðum sem þá voru sett yrði náð. Ég vil í þessari umræðu sérstaklega beina sjónum að stöðu kennarastéttarinnar því að ég er alveg sannfærð um að það sem ég vil kalla hrun kennarastéttarinnar og kennslu á Íslandi á sér langan aðdraganda og ég er sannfærð um að við náum ekki árangri í því að bæta íslenskt skólakerfi án þess að virkilega verði tekið á kjörum og stöðu kennara. Það er algjört grundvallaratriði. Því að þegar einu sinni er búið að brjóta niður vinnuandann í heilli stétt þá gerist það ekki með einhverjum nýjum kennslubókum eða breytingum á kennaramenntun að ástandið batni. Það mun taka okkur langan tíma að byggja upp aftur.

Ég vara við því, hæstv. forseti, að verið sé að kenna konum sérstaklega um þetta ástand. Að vísa til þess hve konur eru orðnar fjölmennar í kennarastétt er engin skýring og við hljótum líka hér og nú að spyrja um afstöðu þjóðarinnar til þess sem verið er að gera í skólanum. Hver er afstaða fólks og hvernig stendur á því að það er svona lítil áhersla lögð á raungreinar hér? Hver er afstaða almennings? Það er ekki síst hún sem þarf að breyta.