Niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um raungreinamenntun íslenskra skólabarna

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 14:02:58 (1704)

1996-12-03 14:02:58# 121. lþ. 33.95 fundur 122#B niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um raungreinamenntun íslenskra skólabarna# (umræður utan dagskrár), TIO
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:02]

Tómas Ingi Olrich:

Virðulegur forseti. Kynning á fyrstu niðurstöðum TIMSS-rannsóknarinnar á námsárangri í stærðfræði og náttúrufræði er mikið umhugsunarefni fyrir Íslendinga. En niðurstöðurnar og frekari úrvinnsla þeirra gefur okkur jafnframt einstakt tækifæri til að vega og meta skólakerfi okkar, líta um farinn veg og meta það sem gert hefur verið en einnig að líta fram á veginn og undirbúa það sem koma skal. Það er þá full ástæða til að leggja áherslu á að það er flókið úrlausnarefni að átta sig til fulls á niðurstöðum könnunarinnar.

Þótt varfærni sé ráðleg og ekki megi hrapa að niðurstöðunum er samt með öllu ástæðulaust að horfast ekki í augu við þann raunveruleika sem könnunin veitir okkur innsýn í. Það er ljóst að í niðurstöðum könnunarinnar er að finna uppgjör við þær áherslur og þann anda sem ríkt hefur í menntamálum undanfarin rúm 20 ár.

Á árunum um og eftir 1970 voru innleidd í skólamálum ný viðhorf sem drógu stórlega úr faglegum kröfum og aðhaldi í skólastarfi. Þessar breytingar ollu mörgum foreldrum og kennurum áhyggjum og hugarangri þegar þær héldu innreið sína. Þær hafa orðið skaðlegri en ella vegna þess að aðstaða fjölskyldunnar til að sinna menntun barnanna hefur á þessu tímabili veikst. Þær niðurstöður sem nú eru kynntar sýna aðeins toppinn af þeim ísjaka sem fleytt var af stað á áttunda áratugnum. Það tekur langan tíma að valda breytingum á skóla- og menntamálum og það mun taka okkur talsverðan tíma að lagfæra það sem aflaga hefur farið. Það tekur ekki síst langan tíma vegna þess að þetta snertir menntun kennaranna og þau viðhorf sem ríkja innan þeirra stofnana sem annast menntun kennara. Það tekur einnig langan tíma vegna þess að menntun þjóðarinnar er mjög háð viðhorfi fjölskyldunnar til lífsgæðanna og þess hlutverks sem menntun gegnir í hugum fólksins og verðmætamati. Það er m.a. af þessum sökum sem við höfum flutt grunnskólann til sveitarfélaganna í þeirri trú að nær vettvangi þar sem vandamálin brenna á mönnum muni þeir takast á við þau með árangursríkari hætti. Það er af þessum sökum sem við höfum samþykkt ný lög um framhaldsskóla þar sem innra og ytra eftirlit er aukið og kröfur hertar. Og það er til þess að undirbúa framtíðina sem valkostum í kennaramenntun hefur verið fjölgað.