Niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um raungreinamenntun íslenskra skólabarna

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 14:07:32 (1706)

1996-12-03 14:07:32# 121. lþ. 33.95 fundur 122#B niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um raungreinamenntun íslenskra skólabarna# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:07]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Íslenska þjóðin hefur orðið fyrir áfalli. Segja má að úrskurður hafi komið þar sem þjóðin gekk undir alþjóðapróf og niðurstöður þess prófs var fall. Hin gáfaða og menntaða íslenska þjóð hefur fengið þann úrskurð að hún sé jafnvel ekki jafngáfuð og menntuð og hún hefur ávallt talið sig. Við fengum niðurstöður og þær eru gagnlegar. Upp hefur gosið mikil umræða um menntamál og ég fagna þeirri umræðu. Allt of lengi hefur umræða um menntamál hér á Íslandi einkennst af því að einangruð fyrirbrigði tengd þessu hugtaki eru rædd og blásin upp en sjaldnar í víðu samhengi. Nú á sér stað umræða í fyrsta sinn í langan tíma meðal þjóðarinnar allrar um gildi menntunar og stöðu skólakerfisins. Þess vegna ber að fagna þessum niðurstöðum. Þær segja okkur að við stöndum illa og þær segja okkur að við höfum vanda sem við þurfum að ráðast á. En niðurstöðurnar hafa líka leitt til umræðu.

Ég vara mjög við einföldun. Skólamál eru flókin. Þau snúast fyrst og fremst um það hvernig nemendur læra og hvar. Þá er vert að hafa í huga að nemendur læra ekki einungis í skólum, þeir læra í umhverfi sínu öllu, í samskiptum við fullorðna, á götum úti og ekki síst inni á heimilunum. Og þegar víkur að þætti heimilanna þá er rétt að hafa í huga hinn langa vinnutíma, lítil samskipti barna og unglinga við foreldra sína, þannig að draga má í efa að nemendur búi við hvetjandi og skapandi umhverfi þar sem margmiðlunin hefur tekið við foreldrahlutverkinu.

Það er mikilvægt fyrir okkur að búa ungu fólki agað umhverfi. Ungt fólk á rétt á því að vita til hvers er ætlast af því og við þurfum að geta fylgt því eftir þannig að ungt fólk alist upp við sjálfsaga og öryggi sem er grundvöllur alls þroska þeirra. Ég hvet hæstv. menntmrh. til að vinna ötullega að málinu og leita reynslu erlendra þjóða.