Niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um raungreinamenntun íslenskra skólabarna

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 14:17:00 (1711)

1996-12-03 14:17:00# 121. lþ. 33.95 fundur 122#B niðurstöður alþjóðlegrar könnunar um raungreinamenntun íslenskra skólabarna# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:17]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég get í sjálfu sér verið stuttorður í lok þessarar umræðu. Ég vil þó andmæla því að ég hafi boðað ómannúðlega stefnu í menntamálum. Það að tala um aga og markmiðssetningu í skólakerfinu er ekki ómannúðlegt heldur miðar það að því að ná þar árangri eins og annars staðar þar sem menn eru að vinna ákveðin verk. Og að leggja mál þannig upp að þær hugmyndir sem hér hafa verið settar fram varðandi endurbætur á skólakerfinu feli í sér mannvonsku er algerlega út í hött og sýnir hve langt menn geta seilst í umræðum um þessi mál til þess að koma þeim á vitlausar brautir.

Ég tel einnig að það sem hér hefur verið sagt um fjárskort í menntakerfinu falli ekki að þeim niðurstöðum sem hér er um að ræða. Það er ekkert sem bendir til þess að með auknum fjárveitingum náum við endilega betri árangri í raungreinum. Það er ekkert sem kemur fram í þessari rannsókn sem sýnir það. Það er heldur ekkert í rannsókninni sem sýnir að við stöndum fjárhagslega verr að vígi eða okkar skólakerfi heldur en skólakerfi í þeim löndum þar sem árangurinn er bestur þannig að við verðum að passa okkur mjög vel á því þegar við tökum þetta mál til umræðu að við vörpum fram réttum spurningum til þess að fá þau svör sem duga til þess að komast að réttri niðurstöðu. Og ég hef m.a. sagt það hér að við skulum sjá betur hvernig niðurstaðan verður skilgreind af rannsóknastofnuninni. Ég er sammála þeim sem hafa tekið undir störf þessarar stofnunar og lagt til að starf hennar verði eflt. Ég held að það sé nauðsynlegt. En gleymum því ekki að á undanförnum árum hefur Alþingi samþykkt nýja löggjöf um grunnskólastigið, um framhaldsskólastigið og komið á nýjum stjórntækjum í skólakerfinu sem eiga að gera okkur kleift betur en áður að mæla árangur og þá að bregðast rétt við.