Skýrsla námsmanna um LÍN

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 14:24:20 (1714)

1996-12-03 14:24:20# 121. lþ. 33.96 fundur 123#B skýrsla námsmanna um LÍN# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:24]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Í síðustu viku lagði samstarfsnefnd námsmannahreyfinganna fram skýrslu um áhrif þeirra breytinga sem gerðar voru á lögum um Lánasjóð ísl. námsmanna vorið 1992 eftir langar og harðar umræður á hinu háa Alþingi. Skýrsla námsmannanna sem var yfirfarin af Ríkisendurskoðun og Hagfræðistofnun háskólans sýnir og sannar að allt það sem spáð var á sínum tíma um afleiðingar breytinganna hefur ræst en flestar þær upplýsingar sem fram koma í skýrslunni hafa birst áður.

Skýrslan leiðir í ljós að einstæðum foreldrum og barnafólki almennt hefur fækkað verulega í námi. Hún sýnir að námsmönnum erlendis hefur fækkað, einkum í þeim löndum þar sem skólagjöld eru há þótt það gildi einnig um önnur lönd, t.d. þar sem námsskipulag kemur ekki heim og saman við kröfur lánasjóðsins. Þá sýnir skýrslan það sem á sínum tíma var eitt helsta deilumálið að endurgreiðslur lánanna verða námsmönnum svo þungar í skauti að þeim eru nánast allar bjargir bannaðar. Það er sýnt að þeir sem ljúka námi með námsskuldir á baki geti ekki eignast húsnæði nema tekjur séu því meiri en sem kunnugt er lenda áhrif jaðarskatta mjög þungt á þeim sem hafa meðaltekjur og þaðan af meira. Ákveðinn hópur verður fram á grafarbakkann að greiða lánin sín og greiðslubyrðin er það þung að hún mun hafa veruleg áhrif á kjör þessa hóps. Allt þetta var vitað, útreiknað og fyrirséð en allt kom fyrir ekki. Þáverandi meiri hluti Sjálfstfl. og Alþfl. keyrði breytingarnar í gegn m.a. með loforðum um námsstyrki sem hvorki hefur sést tangur né tetur af.

Eftir að hafa farið í gegnum þessa skýrslu velti ég því fyrir mér hver tilgangur breytinganna á lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna var í raun og veru. Hann var sagður sá að fækka lánþegum og draga úr eftirspurn eftir lánum. Það hefur gengið eftir á þann veg að ákveðnir hópar hafa horfið frá námi og má þar minna á að áhrifin eru mismunandi eftir því hvaða kjördæmi á í hlut. Nemendum við Háskóla Íslands hefur haldið áfram að fjölga þrátt fyrir fjársvelti skólans en skýringin á því er m.a. sú að stórir árgangar hafa verið á leið í gegnum framhaldsskólana þótt yfirvöld menntamála virðist alltaf jafnhissa á fjölgun nemenda. Sá hópur sem ekki tekur lán fjármagnar nám sitt með öðrum hætti en ekki liggja fyrir upplýsingar um hvernig það er gert og hvort það er með vinnu eða aðstoð foreldra.

Tilgangur breytinganna á sínum tíma var einnig sá að draga úr framlögum ríkisins til sjóðsins og sannarlega hefur það gerst því að sjóðnum hefur í æ ríkara mæli verið beint út á almennan lánamarkað með þeim afleiðingum að verulegur hluti fjármagns hans fer til greiðslu afborgana lána og vaxta.

Ég fullyrði, hæstv. forseti, að tilgangur breytinganna hafi einnig og kannski ekki síst verið sá að þróa Lánasjóð ísl. námsmanna yfir í það að veita lán eins og hver önnur útlánsstofnun á markaðsvöxtum þannig að hugsanlegt verði að afhenda bankakerfinu þennan lánaflokk heldur fyrr en síðar í anda frjálshyggju Sjálfstfl. eins og samþykktir hans reyndar bera með sér. Slíkt gengur að sjálfsögðu þvert á þau markmið um jafnrétti til náms sem til skamms tíma voru aðalsmerki lánasjóðsins.

Hæstv. forseti. Ég ætla að sleppa því hér að deila um það hvort lánasjóðurinn hafi stefnt í þrot árið 1992 en í skýrslunni eru leidd sterk rök að því að svo hafi ekki verið eins og reyndar var haldið fram af þáverandi stjórnarandstöðu 1992. Það sem skiptir máli er það hvernig verður brugðist við þeim nöturlegu staðreyndum sem verða æ ljósari um alvarlegar afleiðingar breytinganna á lánasjóðnum. Þar er annars vegar um að ræða þunga endurgreiðslubyrði lána sem tekin voru frá og með haustinu 1992 og hins vegar það hve námsmönnum er gert erfitt fyrir með að stunda nám sitt með oft og tíðum óraunhæfum kröfum um námsframvindu og því að þeir fá ekki lán fyrr en prófum er lokið ár eftir ár alveg sama þótt ljóst sé að þeir stunda nám sitt af fyllstu alvöru sem reyndar flestir gera.

Hæstv. forseti. Svo sem kunnugt er hafa stjórnarflokkarnir deilt hart um breytingar á núgildandi lögum um LÍN. Þeim breytingum er að einhverju leyti og vonandi ætlað að bregðast við þeim miklu erfiðleikum sem námsmenn standa frammi fyrir en þær munu koma niður á sjóðnum sjálfum og heimilum námsmanna á komandi árum verði ekki að gert. Landsfundur Framsfl. gerði harðar samþykktir um málið og stendur flokkurinn vonandi við það sem hann lofaði fyrir síðustu kosningar. Ekkert bólar þó á niðurstöðum og því er eðlilegt að spyrja: Á hverju stendur?

Ég vil spyrja hæstv. menntmrh. hvernig hann hyggist bregðast við skýrslu námsmannahreyfinganna og þeim upplýsingum sem þar koma fram, ekki síst þeim sem snúa að einstæðum foreldrum sem eru að miklum meiri hluta ungar konur, barnafólki og þeirri fækkun sem orðið hefur á námsmönnum erlendis sem við hljótum að vera sammála um að er framtíð íslensks samfélags ekki til góðs.