Skýrsla námsmanna um LÍN

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 14:37:32 (1717)

1996-12-03 14:37:32# 121. lþ. 33.96 fundur 123#B skýrsla námsmanna um LÍN# (umræður utan dagskrár), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:37]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Enn einu sinni eru málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna til umræðu hér á Alþingi og enn einu sinni höfum við heyrt rangfærslu námsmanna við undirleik stjórnarandstöðunnar. Árið 1991 var svo komið eftir viðskilnað Svavars Gestssonar, sem hækkaði námslán umfram laun og verðlag rétt fyrir kosningar og dró úr framlögum ríkisins til sjóðsins, að sjóðurinn stefndi í gjaldþrot. Það vantaði milljarð til að hann gæti staðið við skuldbindingar sínar. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar brást við, sjóðnum til bjargar, með 700 millj. kr. framlagi og ýmsum öðrum aðgerðum. Ef ekkert hefði verið gert hefði sjóðurinn einfaldlega farið á hausinn við óbreyttar aðstæður þar sem vaxtalaus útlán úr sjóðnum voru í stórum stíl fjármögnuð með óhagstæðum lánum sem báru allt að 9% vexti. Slík óráðsía gat ekki gengið til lengdar og mátti öllum ljóst vera á þessum tíma. Ný lög voru síðan sett í kjölfarið á vordögum 1992 til að tryggja framtíð lánasjóðsins. Námsmenn hafa gagnrýnt harkalega það sem þeir kalla eftirágreiðslu námslána og enn fremur endurgreiðslureglur. Öllu máli skiptir í þessu sambandi að námsaðstoð sé fyrir hendi fyrir þá sem uppfylla skilyrði til að fá hana. Til þess að svo megi verða þurfa menn að sýna fram á að þeir stunda nám sitt með árangri. Annað væri óeðlilegt. Þess venga hljóta námslán að greiðast eftir að árangri er skilað.

Um endurgreiðslu námslána eru staðreyndir þær að launþegi greiðir að hámarki 5% af brúttótekjum af láni sínu eftir tvö ár frá námslokum samkvæmt gildandi lögum um LÍN. Lánin eru vaxtalaus á námstíma en bera síðan 1% vexti. Ef launþegi hefur t.d. 2 millj. í tekjur, greiðir hann fasta greiðslu um það bil 100 þús. á ári. Eftir fimm ár greiðir hann að hámarki 7% eða um það bil 140 þús. á ári. Þessum greiðslum er hægt að jafna á mánuði, t.d. með greiðsluþjónustu banka. Í síðara tilvikinu greiddist þá innan við 12 þús. kr. á mánuði en í hinu fyrra rúmlega 8 þús. kr. Málflutningur þeirra sem halda því fram að slík kjör séu afarkostir eru hreinar ýkjur.