Skýrsla námsmanna um LÍN

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 14:45:04 (1720)

1996-12-03 14:45:04# 121. lþ. 33.96 fundur 123#B skýrsla námsmanna um LÍN# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál hér upp. Reynslan sýnir að það er þörf á því að halda mönnum við efnið í lánasjóðsmálinu.

Rangfærsla námsmanna við undirleik stjórnarandstöðunnar. Það var framlag formanns menntmn. Alþingis til þessarar umræðu. Það var innleggið frá helsta talsmanni Sjálfstfl. að frátöldum menntmrh. Það væri það sem við værum að upplifa í umræðunni þessa dagana, það væru rangfærslur námsmanna við undirleik stjórnarandstöðunnar. Svo er endurtekið gamli rógurinn um stöðu LÍN í kringum 1990 þar sem valinn er sá tímapunktur í viðmiðun þegar endurgreiðslur verðtryggðra námslána voru aðeins að litlu leyti farnar að skila sér og þegar yfir stóð mjög mikil fjölgun námsmanna.

Eitt af ótalmörgum kosningaloforðum Framsfl. og mál sem Framsókn talaði sig upp í mikinn hita um á flokksþingi sínu nýlega var lánasjóðsmálið. En nú ber hins vegar svo við að Framsókn er gufuð upp. Það hefur enginn tekið til máls fyrir hönd Framsfl. í þessari umræðu. Tvö baráttumál eru efst á lista námsmanna um þessar mundir. Það eru annars vegar samtímagreiðslur námsmanna og hins vegar vægari endurgreiðslukröfur. Þetta eru einföld mál og það á ekki að þurfa margra vikna eða mánaða baktjaldamakk og hrossakaup til að fá niðurstöðu í þetta mál. Nýjar upplýsingar sýna það að staða lánasjóðsins, sem notuð hefur verið sem grýla í þessum efnum, gefur ekki tilefni til og hefur aldrei gefið tilefni til að skemma námslánakerfið eins og gert hefur verið. Sú blekking hefur verið afhjúpuð. Það er nú svo komið, herra forseti, að sandurinn er runninn út í stundaglasi Framsóknar og við neyðumst til að fara að lýsa eftir þeim í tapað/fundið eina ferðina enn ef ekki fer að heyrast eitthvað frá þeim. Nú er um tvennt að velja: Fá niðurstöðu í þessi einföldu baráttumál námsmanna eða kyssa á vönd menntmrh. og fjmrh. með tilheyrandi niðurlægingu fyrir Framsfl.