Skýrsla námsmanna um LÍN

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 14:51:57 (1723)

1996-12-03 14:51:57# 121. lþ. 33.96 fundur 123#B skýrsla námsmanna um LÍN# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[14:51]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Í sjálfu sér held ég að við nálgumst ekki kjarna málsins frekar í þessum umræðum því að það þarf að brjóta einstaka þætti þessarar skýrslu betur til mergjar heldur en við getum gert á þeim skamma tíma sem um er að ræða. Það er rangt að ég hafi talað um rangfærslur í þessari skýrslu. Ég sagði að ýmis atriði í henni væru gagnrýnisverð og skárra væri það nú ef það mætti ekki halda slíku fram, að ýmis atriði í skýrslu jafnlangri og þessari væru gagnrýnisverð.

Það er einnig rangt að draga þá ályktun af því sem stendur á titilblaði skýrslunnar að Ríkisendurskoðun hafi lagt einhverja blessun sína yfir niðurstöðurnar í þessari skýrslu. Það hafa einstakar tölur verið bornar undir þá stofnun, en hún hefur enga blessun lagt yfir þessa skýrslu.

Ég verð að leyfa mér að segja það, herra forseti, að hvað sem líður störfum mínum sem ráðherra í tilefni af orðum hv. þm. Ágústs Einarssonar, þá held ég að það standi meira eftir af mínum störfum heldur en af Þjóðvaka á þeim tíma sem þingmaðurinn hefur starfað á hinu háa Alþingi. Ef það yrði gengið til vitnis nú um það hvernig menn hafa starfað á þeim mánuðum sem liðnir eru frá síðustu kosningum þá gæti ég fremur gengið fram fyrir mína umbjóðendur heldur en þeir sem buðu sig fram í nafni Þjóðvaka. Það fer þingmanninum ekki vel að vera að leggja dóm á störf manna með þessum hætti.

Ég er sammála hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni að það er æskilegt við endurskoðun á lögunum um Lánasjóð ísl. námsmanna að taka fleiri atriði sem nú eru í úthlutunarreglunum inn í lagatextann sjálfan. Ég held að það sé rétt ábending sem hann er með að lagatextinn er að ýmsu leyti of heimildarmikill til stjórnar lánasjóðsins og það er óeðlilegt að þingmenn afsali sér valdi með þeim hætti sem gert er í lögunum. Þetta er eitt af því sem við höfum verið að skoða við endurskoðun á lögunum og reglunum um Lánasjóð ísl. námsmanna og er sjálfsagt að taka til skoðunar.

Í tilefni af orðum hv. þm. Svavars Gestssonar sem fullyrti að ég hefði hert á andstöðu minni við samtímagreiðslur í ræðu minni, þá minntist ég aldrei á það með einu orði. Allar hans ályktanir sem dregnar eru af þessum tilbúningi hans eru því jafnmikill tilbúningur og upphafið sjálft.