Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 15:26:13 (1725)

1996-12-03 15:26:13# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[15:26]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Í vor reyndi ríkisstjórnin að þrengja mjög að lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna. Það tókst að hrinda þeirri atlögu og það var vel. Þessi ríkisstjórn hefur reyndar ekki verið mjög vönd að virðingu sinni gagnvart réttindum launþega. Vitaskuld þarf ekki að hafa mörg orð um það að lífeyrisréttindi eru stjórnarskrárvarin réttindi einstaklinga þannig að aldrei getur komið til greina að breyta lífeyrisréttindum núverandi starfsmanna ríkisins þannig að þau séu þrengd eða skert á einhvern máta. Þetta frv. lýsir stefnubreytingu af hálfu stjórnvalda og ástæða er til að spyrja hæstv. fjmrh. hvort þessi stefnumörkun eigi að gilda fyrir alla launþega hérlendis.

Íslenska lífeyrissjóðakerfið byggir á þremur meginstoðum, þ.e. skylduaðild, sjóðsöfnun og samtrygging. Það er niðurstaða t.d. Alþjóðabankans að einmitt slík uppbygging sé farsæl þegar litið er til lengri tíma. Það er hins vegar mikill munur á opinberu lífeyriskerfi og því á almennum vinnumarkaði. Þannig hefur t.d. verið greitt af öllum launum í sjóði á almenna markaðinum en einungis af dagvinnulaunum hjá ríkinu. Ábyrgð hefur verið öðrum hætti. Ríkið hefur borið ábyrgð á skuldbindingum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins en lífeyrissjóðir á almennum markaði hafa orðið að axla ábyrgð af sínum skuldbindingum sjálfir.

Lífeyrissjóðsaldur er mismunandi í þessum kerfum. Almenna reglan er sú að á almennum markaði byrja menn að taka lífeyri 67--70 ára en hjá því opinbera hefur það verið 65--70 ára en verður í hinni nýju deild sem almenn regla við 65 ár.

Það er oft sagt að staða íslenska lífeyrissjóðakerfisins sé slæm. Það er ekki rétt. 32 af 38 sjóðum hérlendis eiga fyrir skuldbindingum sínum og það hefur orðið gjörbreyting á fjárhagsstöðu þeirra síðustu ár. Þeir sjóðir sem eru sístir eru einmitt opinberir sjóðir, þ.e. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóður hjúkrunarkvenna, en tekið er á þeim sjóðum í þessu frv. Þriðji sjóðurinn er Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar. Þó að það vanti á sjóðsmyndun hjá opinberum lífeyrissjóðum þá er það ekkert annað en skuldbinding á skatttekjum framtíðarinnar. Það er því allt öðruvísi þótt um fjárvöntun sé að ræða í opinberum sjóðum heldur en vöntun á sjóðsmyndun á almennum vinnumarkaði. Það er tvennt ólíkt þar sem opinberir aðilar hafa burði til þess að taka á sig fjárskuldbindingar langt fram í tímann af þeirri einföldu ástæðu að skattlagningarvaldið er í þeirra höndum.

Ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki hafa á undanförnum árum verið látin góðu heilli færa til gjalda skuldbindingar og mynda þannig sjóð í stofnunum til að mæta lífeyrisskuldbindingum vegna starfsmanna sinna. Þessi sjóðsmyndun hefur reyndar ekki verið eignfærð innan Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Staða íslenska lífeyrissjóðakerfisins er að mörgu leyti mun betri en erlendis. En lífeyrissjóðir eiga mjög víða í erfiðleikum einkum í Evrópu.

Skuldbindingar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóðs hjúkrunarkvenna eru þó 135 milljarðar miðað við 2% vexti en eignir eru 29 milljarðar. Á þessu sést að vöntun á sjóðsmyndun í þessum lífeyrissjóðum er mjög veruleg og brýnt var að taka á þeim vanda. Eitt meginatriði þessa frv. er m.a. að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins verður skipt upp í tvær deildir, A-deild fyrir nýja starfsmenn og B-deild fyrir eldri. Lífeyrisréttindin eiga að vera sambærileg í báðum deildum og það er ein af hinum mikilvægu pólitísku ákvörðunum sem tengjast þessu frv. Jafnframt eru gerðar ýmsar aðrar breytingar eins og að í hinni nýju deild verður greitt lífeyrisiðgjald af öllum launum og að fjárhagur eldri deildar verði styrktur með tilteknum reglum eða útfærslu sem hæstv. fjmrh. gerði grein fyrir. Einnig er til bóta að felld er niður svonefnd eftirmannsregla og áfram mun verða greitt í sjóðinn fyrir þá launþega sem hafa lokið greiðslu til sjóðsins samkvæmt 32 og 95 ára reglu. Þetta eru ákvæði sem er til bóta í þessu frv. og sömuleiðis að taka með sambærilegum hætti á Lífeyrissjóði hjúkrunarkvenna.

[15:30]

Eitt af meginatriðunum frv. er hins vegar það að launagreiðandi mun greiða þá prósentu sem þarf til að standa undir lífeyrisskuldbindingum, þ.e. lögbundið er 4% iðgjald launþega, en í stað þess að greiða í sjóðinn 6% eins og er á almennum markaði mun ríkið greiða fyrst um sinn 11,5%. Áhrif þessarar útfærslu á almennan lífeyrissjóðamarkað geta orðið umtalsverð. Þessi 11,5% greiðsla af opinberri hálfu í hina nýju deild lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins mun hugsanlega hafa fordæmisgildi í viðræðum, við uppstokkun í lífeyrismálum á almennum markaði. Réttur til elli- og örorkulífeyris er bættur í hinni nýju deild lífeyrissjóðsins en á kostnað makalífeyris. Hins vegar verður að hafa í huga að ekki liggur fyrir mjög nákvæmt mat á hvað þetta þýðir miklar fjárskuldbindingar fyrir hina nýju deild sjóðsins. Þannig er ýmislegt sem bendir til að þessi úrfærsla á örorkulífeyri í hinu nýja kerfi sé með þeim hætti að skuldbinding ríkisins verði umtalsverð á næstu árum og áratugum.

Það er rýmkaður aðgangur að sjóðnum. Þannig er gert ráð fyrir að lausráðnir starfsmenn ríkisins gerist aðilar að honum og um helmingur þeirra sem nú eiga aðild að Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda geta gerst aðilar að hinum nýja lífeyrissjóði. Áhrif þessa á sjóðinn eru ekki nægjanlega könnuð eins og frv. liggur fyrir nú. Fjölgað er í stjórn sjóðsins, bætt við fulltrúum Kennarasambands Íslands, og er það eðlilegt. Það hefði hins vegar farið mun betur á því að frv. hefði verið lagt fram sem heildarlöggjöf um lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins, í stað þess að vera í bland ný löggjöf og breyting á eldri löggjöf. Það hefði veitt mun betri yfirsýn yfir málið.

Meginatriði frv. er þó að það staðfestir að tvenns konar lífeyriskerfi er í landinu. Það er kerfi sem gildir fyrir starfsmenn á opinberum vinnumarkaði, þó aðeins fyrir þá aðila á sem eru í stéttarfélögum opinberra starfsmanna. Þetta lífeyriskerfi hefur lengi verið ívið betra en það sem launþegar á almennum vinnumarkaði búa við. Ókostir þess fyrir ríkisstarfsmenn hafa hins vegar verið að þeir hafa oft á tíðum búið við lægri laun en almennt tíðkast á almennum vinnumarkaði. Betri lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna hefur þó verið misskipt, því þeir sem lægri hafa haft launin í opinberri þjónustu búa margir við greiðslu úr almannatryggingakerfinu fyrir utan lífeyri, t.d. í formi tekjutryggingar þegar komið er á lífeyrisaldur. Þannig hefur þessi betri lífeyrisréttur í reynd ekki þýtt betri stöðu í ellinni miðað við aðra launþega en hins vegar hafa margir orðið að gjalda þess á starfsævi sinni að búa við lakari kjör en gengur og gerist á almennum vinnumarkaði.

Það sem er ef til vill mest til umhugsunar í þessu frv. er hvort hinu tvöfalda lífeyrissjóðskerfi verði viðhaldið. Það hefur verið markmið mjög margra sem hafa komið að lífeyrismálum undanfarin ár að samræma lífeyrisréttindi, þannig að menn byggju við sambærilegt lífeyriskerfi hvort sem þeir störfuðu hjá opinberum aðilum eða hjá öðrum. Síðari ár hefur þeirri skoðun einnig vaxið fylgi að með því að bæta við lífeyrisgreiðslur mætti tryggja sig enn betur og menn gætu komið sér upp einstaklingsbundnum lífeyrisréttindum sem væru betri en lágmarksréttindi í skyldukerfi. Flestir eru þeirrar skoðunar, og ég er þeirra á meðal, að það sé mjög brýnt að öllum launþegum á Íslandi sé skylt að greiða til lífeyrissjóðakerfisins. Hins vegar finnst mér athugandi hvort ekki eigi samhliða greiðsluskyldunni að heimila launþegum að velja milli lífeyrissjóða. Þessi hugmynd nýtur nokkurs fylgis en einnig mikillar andstöðu. Ég hvet til þess að í tengslum við endurskoðun á lífeyriskerfinu fari fram ítarleg umræða um þennan þátt. Þetta er ekki einfalt mál því það þarf að huga að mörgu áður en menn slá því föstu að valfrelsi milli lífeyrissjóða sé rétt stefna.

Það er athyglisvert að velta fyrir sér þeirri leið, sem reyndar hefur verið farin annars staðar, að nýir starfsmenn séu ráðnir á sambærilegum lífeyrisréttindum og á almennum markaði og eiga þá aðild að slíkum lífeyrissjóðum, en þá gegn því að þeir væru á hærra kaupi.

Í frásögn af undirbúningi frv. kemur fram hjá aðstoðarmanni fjmrh. í Morgunblaðinu 23. nóv. að sú leið að hækka laun nýráðinna starfsmanna til samræmis við þá réttindaskerðingu, þ.e. aðlögun að lífeysissjóðskerfi á almennum markaði, hafi ekki verið skoðuð af neinni alvöru vegna andstöðu opinberra starfsmanna. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort hér sé rétt með farið. Hvort forustumenn opinberra starfsmanna hafi hafnað því að hækka laun nýrra umbjóðenda sinna gegn þrengingarákvæðum í lífeyrissjóðsmálum. Mjög lengi hefur verið rætt um að einmitt sú leið gæti verið meginþátturinn í uppstokkun lífeyrismála á opinberum markaði og ekki hvað síst til samræmingar við almennan markað.

Sérstök ástæða er, herra forseti, að vekja athygli á ummælum hæstv. fjmrh. í Morgunblaðinu 16. nóv. sl. þar sem hann segir að hann vonist til að frv. sem við erum að ræða hér verði afgreitt á Alþingi fyrir áramót. Hann segir að það skipti miklu máli að samkomulag sé um breytingarnar milli samtaka opinberra starfsmanna og stjórnvalda. Síðan segir fjmrh. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

,,Alþingi verði að hafa þetta í huga og leitast við að gera ekki aðrar breytingar á frumvarpinu en þær sem samkomulag er um við opinbera starfsmenn.``

Hér er að mínu mati um forkastanlega yfirlýsingu að ræða. Að fjmrh. og ríkisstjórnin séu að binda hendur Alþingis varðandi afgreiðslu lagafrv. Ég vil benda á það að ríkisstjórnin og hæstv. fjmrh. fara ekki með löggjafarvaldið í þessu landi og heldur ekki samtök opinberra starfsmanna né nokkur önnur samtök. Þetta hefur ekkert með eðli eða efni frv. að gera. Hér er lögð fram tillaga sem Alþingi tekur til umfjöllunar. Það eru margir kostir á henni, ýmis álitamál og vafalítið eitthvað sem má betur fara. Alþingi mun breyta þessu frv. eftir sínu höfði. Vitaskuld má búast við því þar sem málið er stjfrv. að breytingarnar verði ekki veigamiklar vegna þess að ríkisstjórnarmeirihlutinn stendur jú að málinu og málið nýtur auk þess velvildar stjórnarandstöðunnar. Ég vil hins vegar vita afstöðu hæstv. forseta Alþingis gagnvart slíkum ummælum um störf þingsins. Hér er verið að segja að það eigi ekki að breyta frv. sem fram koma vegna þess að það hafi verið gert samkomulag við þriðja aðila um tiltekna útfærslu. Mér finnst þetta ekki góð vinnubrögð og ummæli og skýringar fjmrh. hér áðan fundust mér ekki bæta stöðu málsins.

Það sem er einna alvarlegast varðandi þetta frv. er staða launþega sem eiga ekki aðild að stéttarfélögum opinberra starfsmanna. Hér er átt við starfsmenn ASÍ-félaga eins og t.d. Sóknar. Það eru 5.000--6.000 launþegar sem vinna hjá ríkinu en eru félagar í ASÍ. Mismunandi útfærsla á lífeysisréttindum eins og staðfest er í þessu frv. getur kallað á vandkvæði við samningsgerð fyrir þennan hóp. Ég sé ekki betur en að hér séu brigðir gagnvart t.d. starfsmönnum Sóknar sem stóðu í þeirri meiningu þegar lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna voru afgreidd í vor að þeir mundu njóta þeirra lífeyrisréttinda sem gilda hjá opinberum starfsmönnum.

Sömuleiðis þýðir þetta frv. mikla óvissu hjá Pósti og síma sem breytt var í hlutafélag. Það má benda á að fjölmargar starfsstéttir vinna bæði hjá ríki og einkaaðilum og má þar nefna t.d. Rafiðnaðarsambandið. Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, segir að þetta frv. eigi eftir að flækja málin verulega hjá Pósti og síma og bendir á að það félag hefur óskað eftir einum kjarasamningi fyrir sitt starfsfólk. Staðreyndin er hins vegar sú að hluti starfsfólksins er í lífeyrissjóði sem veitir betri réttindi en annað starfsfólk fyrirtækisins býr við. Hvernig á þá að bæta úr þessu öðruvísi en að fólk sé þá á mismunandi launum hlið við hlið? Þetta getur kallað á veruleg vandkvæði við næstu kjarasamningagerð og virðist gerð frv. hafa verið með þeim hætti að Alþýðusambandið, sem er jú einn talsmaður stærsta hlutans af þeim starfsmönnum sem vinna hjá hinu opinbera, hafi ekki verið kallað mjög til að veita ráðgjöf varðandi þennan þátt. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvernig hann hyggist halda á lífeyrismálum gagnvart Alþýðusambandinu í framtíðinni. Sömuleiðis má benda á að sjóðurinn mun bera með óbeinum hætti ábyrgð á lífeyrisgreiðslunum þar sem reikna verður út á hverju ári út það iðgjald sem nauðsynlegt er af hálfu launagreiðanda. Þessi útfærsla er álitamál en á almennum markaði bera sjóðirnir þessa ábyrgð. Þar hefur það gerst að þurft hefur að skerða réttindi í sjóðum sem ekki hafa haft nægilegt fjárhagslegt bolmagn þó það sé vonandi liðin tíð. Einnig er hugsanlegt að þetta kalli á vandkvæði hjá ýmsum öðrum fyrirtækjum eins og Áburðarverksmiðjunni og Sementsverksmiðjunni. Sú staða getur komið upp að Vinnuveitendasambandið semji við stéttarfélög um lífeyrisréttindi í sjóðum sem þeir hafa engin tengsl við og þurfa þessi mál að skoðast í víðara samhengi.

Það sem ég tel vera einna mest til íhugunar við þetta frv. er að með því er ef til vill sú hugmynd að samræma lífeyriskerfi landsmanna gefin upp á bátinn, nema, og það er ef til vill það mikilvægasta í sambandi við frv., þetta nýja kerfi á opinberum markaði verði fyrirmyndin á almenna markaðnum. Vitaskuld þarf að fara mjög vandlega yfir hina tryggingafræðilegu útreikninga sem fylgja frv., einkum forsendur þeirra, en ýmislegt bendir til að reiknað sé út frá öðrum forsendum en eru á almenna markaðnum. Mér finnst vera álitaefni, og það þurfi þá betri rökstuðning fyrir því, að hugsanlegt er að fjárskuldbindingar sem bætast á sjóðinn vegna þeirra aðila sem eiga kost á því að fara úr eldra kerfi yfir í hið nýja geti orðið verulegar. Ég vil einnig spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann hyggist beita sér fyrir breytingum á ýmsum sérsjóðum sem hafa verið í gangi í lífeyrismálum. Hér ber hæst Lífeyrissjóð alþingismanna og Lífeyrissjóð ráðherra. Ef hann vísar á frumkvæði Alþingis í þeim efnum tel ég rétt að það komi fram yfirlýsing forseta þingsins eða formanna þingflokka stjórnarliðanna, þeirra hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur og Geirs H. Haarde um að þau muni beita sér fyrir því að löggjöf um þá sjóði verði breytt með sambærilegum hætti og hér er lagt upp með.

Það þarf vitaskuld að huga vel að því hvernig lífeyrissjóðunum er háttað hér á landi. Ég vil benda á það að sjóðsmyndun í lífeyrissjóðakerfinu er nú vel yfir 200 milljarða kr. Það liggja fyrir spádómar um að sjóðsmyndunin gæti orðið 700 milljarðar kr. Hér er um að ræða vitaskuld mjög mikið umfang í okkar efnahagslífi. Það kallar á það sérstaklega ef lífeyrissjóðirnir halda áfram í auknum mæli að fjárfesta í íslensku atvinnulífi að gæta að því hvernig farið er með það vald sem þessi sameiginlega eign veitir okkur. Það þarf bæði að tryggja hina faglegu stjórnun og lýðræðislegu aðkomu að þessum málum en fámennisvald í lífeyrissjóðakerfinu íslenska hefur verið regla frekar en hitt.

Vitaskuld eru aðrar almennar endurbætur mögulegar í lífeyrissjóðakerfinu, t.d. að lífeyrisréttindi séu sameign hjóna eða fólks í sambúð og skiptist til helminga við skilnað eða búskipti, og að við fráfall gangi réttindi til barna fram að 20 ára aldri við sérstakar aðstæður. Það er hægt að færa rök fyrir slíkum breytingum og einnig því að við fráfall maka fái sá sem eftir lifir ekki minni rétt heldur en sá eða sú sem fallið hefur frá hefur aflað sér. Þannig eru ýmsar réttarbætur sem hefði komið til álita að gera samhliða þessum breytingum.

Einnig hefði verið ástæða til að skoða skattalög gagnvart lífeyrissjóðssparnaði. Víða um heim er reynt að færa sparnað yfir í lífeyrissparnað á frjálsum grundvelli og þá er rétt að skattalegar aðgerðir séu látnar gæta jafnræðis á þeim vettvangi. Við verðum að fylgjast vel með því sem er að gerast erlendis á þessu sviði og laga löggjöf okkar að því. Í grundvallaratriðum er lífeyrissjóðakerfi okkar gott. Það hefur þurft endurbóta við einkum hvað varðar opinberan vinnumarkað og þessi útfærsla sem frv. gerir ráð fyrir bætir vissulega núverandi ástand.

Það er mikilvægt að um frv. hefur orðið friður og samstaða við stéttarfélög opinberra starfsmanna. Vitaskuld er mikilvægast að það sé samstaða við launþega við endurbætur á lífeyrissjóðakerfinu, ekki síst í ljósi atburðanna í vor. Það er vert umhugsunar hvort þessi útfærsla fresti eða flýti fyrir samræmingu lífeyriskerfa hérlendis. Það þarf að skoða vandlega áhrif þessa á vinnumarkaðinn og stöðu ASÍ-félaga því þeirra rétt þarf einnig að tryggja vel í þessu máli.

Við jafnaðarmenn munum greiða fyrir opinni og hreinskiptinni umræðu um málið og því að það fái vandaða og skjóta meðferð hér á hinu háa Alþingi.