Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 15:44:37 (1726)

1996-12-03 15:44:37# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[15:44]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru örfá atriði. Í fyrsta lagi vil ég segja að það hefur ekki orðið stefnubreyting hjá stjórnvöldum frá því í vor hvað snertir það atriði að við höfum ávallt talið að við yrðum að skila jafnverðmætum lífeyrisréttindum til starfsmanna. Það sem gerðist hins vegar á liðnu vori var að þegar reynt var að breyta sjóðnum án þess að loka honum og stofna til nýrrar deildar, þá reyndust við útreikning fyrstu hugmyndir ríkisvaldsins --- það frv. var aldrei lagt fram á Alþingi --- vera þannig að það vantaði á réttindin. Það stóð að sjálfsögðu aldrei til að taka réttindi af starfsmönnunum, þessi réttindi sem snúa að lífeyrissjóðunum.

Spurt var hvort þessi sjóður standi opinn fyrir alla starfsmenn ríkisins. Með þessari breytingu er lagt til að þeir sem geti verið aðilar séu fyrst og fremst þeir sem eru í BHM og BSRB og það er tekið ákveðnar á því í þessum lögum heldur en var í gömlu lögunum. Ég útilokaði það ekki neitt að aðrir geti komist að þessum sjóði einhvern tíma en menn þurfa þá að hafa í huga að það ætti að framkalla launamun í kerfinu. Það er alveg beint samband á milli launakjaranna og lífeyriskjaranna, getur ekki orðið annað. Og mín skoðun er sú að þetta frv. eitt út af fyrir sig breyti engu hvað snertir lífeyrissjóði ASÍ.

Spurt var að því og vitnað til aðstoðarmanns míns hvort ekki hefði verið kannað að fara þá leið að bæta mönnum þetta upp í launum. Ég vil að það komi fram að forsendan fyrir þessum breytingum var sú að við værum að skila jafnverðmætum lífeyrisréttindum.

Um sérsjóðina vil ég einungis láta það koma fram að ég er þeirrar skoðunar og hef sagt það áður að það eigi að breyta bæði ráðherrasjóðnum og alþingismannasjóðnum. En ég tel rétt, eins og með biðlaunin í vor, að þingið sjálft taki upp þær breytingar og ég minni á að Alþingi eða forsetar Alþingis og formenn þingflokka gerðu það þegar biðlaunaréttinum var breytt til samræmis við það sem nú er í nýju starfsmannalögunum.