Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 15:51:32 (1729)

1996-12-03 15:51:32# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[15:51]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svörin. Það má vel vera að það sé einmitt rétt hjá honum að e.t.v. hafi frv. ekki mjög mikil áhrif á almenna vinnumarkaðnum, að fyrirkomulagið sem við búum við nú þegar sé einfaldlega staðfest, þ.e. tvöfalt lífeyrissjóðakerfi. Það var þetta sem ég benti á í minni ræðu og hef vissar áhyggjur af, þ.e. að sú útfærsla sem staðfestir tvöfalt lífeyrissjóðakerfi hefur leitt til þess að opinberir starfsmenn hafa oft á tíðum verið á lakari launakjörum vegna betri lífeyrisréttinda en á almennum markaði, hefur kallað á sambúðarvandamál í íslenskri launþegahreyfingu. Ég er hins vegar bjartsýnn á að e.t.v. leiðir þetta frv. til nánari samvinnu stéttarfélaganna í þessu landi og jafnvel sameiningar þessara stéttarfélaga sem nú starfa á opinberum markaði og almennum markaði og nokkrar viðræður hafa svo sem farið fram í þá átt. (Fjmrh.: Ég er sammála því.) Ég heyri að hæstv. ráðherra er sammála því og erum við þá sammála um mat á þessum þætti málsins. Ég tel að þetta gæti verið mjög af hinu góða og er nú komin upp nokkuð skrýtin staða þegar við fjmrh. erum sammála um hlut sem ég er fullviss um að ýmsir forustumenn til að mynda opinberra starfsmanna gætu líklega fellt sig við og einnig á almennum markaði. Það er því hugsanlegt að þetta frv. leiði til meiri uppstokkunar en einungis í lífeyrismálum og það væri vel.