Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 15:53:24 (1730)

1996-12-03 15:53:24# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[15:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það hljóta að teljast þó nokkur tíðindi í ljósi þess hversu mikið og lengi hefur verið rætt um endurskoðun lífeyrismála og þá ekki síst lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna, að hér skuli nú mælt fyrir frv. sem byggir á samkomulagi úr nefndarstarfi þar sem báðir málsaðilar, launagreiðendurnir og fulltrúar launamanna, hafa náð saman um endurskoðun og nýskipan þessara mála.

Ég vil segja það strax að ég held að sú nálgun málsins sem hér hefur verið valin sé og hafi alltaf verið eina færa leiðin, þ.e. að draga strik gagnvart þeim réttindum sem þegar eru áunnin og hafa myndast og svo þeirri nýskipan mála sem varðar framtíðina þegar áunnin réttindi og staða þeirra manna sem fyrir eru í tilteknu lífeyrisumhverfi eru óumdeilanlega lögvarin réttindi viðkomandi og verða ekki af þeim tekin bótalaust. Þar af leiðandi hefur mér lengi þótt blasa við og liggja í augum uppi að þetta væri sú leið sem ein væri í rauninni fær til að koma á nýrri skipan.

Ég fagna í öðru lagi því að samkomulag tókst í því nefndarstarfi sem liggur til grundvallar frv. Hvað sem mönnum að öðru leyti finnst um efni þess og geta haft á því ýmsar meiningar og á því verið skiptar skoðanir, þá hlýtur það að breyttu breytanda að vera fagnaðarefni að vinnubrögðin, aðferðin er sú að laða fram samkomulag málsaðila um breytingarnar. Það hlýtur þar af leiðandi að vigta þungt þegar við tökum þetta mál til meðferðar á hinu háa Alþingi að um jafngífurlega viðkvæmt og vandasamt mál með jafnmikilli skírskotun eða tengingu við launakjör og lífskjör þúsunda manna, hefur náðst samkomulag.

Eins og rakið var í framsöguræðu og óþarfi er að tíunda aftur í löngu máli, þá byggir þessi niðurstaða í aðalatriðum á því að núverandi lífeyrissjóði er lokað og það kerfi starfrækt áfram í svonefndri B-deild en nýja kerfið tekur til starfa í fjárhagslega aðskilinni A-deild sjóðsins. Meginbreytingin sem að launamönnum snýr er sú og vegur þar auðvitað þyngst, að nú verður tekin upp sú skipan að greitt verður af öllum launum eða heildarlaunum og að haldið verður áfram að greiða af launum allt til starfsloka. Hvort tveggja er að sjálfsögðu til þess fallið að styrkja stöðu sjóðsins. Af því sem snýr að launagreiðendum er langveigamest sú breyting að upp eru teknar, ef svo má að orði komast, samtímagreiðslur launagreiðandans til að standa undir skuldbindingunum, í stað þess að þær hlóðust upp og ekki var lagt til hliðar fyrir þeim eins og kerfið hefur verið. Þetta kallar að sjálfsögðu á að framlag launagreiðandans hækkar og verður á næsta ári samkvæmt mati eða á að verða 11,5% í stað 6% áður. Þetta mun að sjálfsögðu hafa þau áhrif á útgjöld ríkissjóð að þau aukast strax á næsta ári og í framhaldinu, að mati fjárlagaskrifstofu fjmrn. samkvæmt fylgiskjali með frv., um 600 millj. kr. á næsta ári og allt að 1.200 millj. á því þar næsta, þ.e. á árinu 1998 og framvegis. En það er rétt að vekja athygli á því og undirstrika að hér er ekki í sjálfu sér um ný útgjöld að ræða heldur flýtingu á greiðslum frá þeirri ábyrgð sem ella hefði verið og legið hjá launagreiðendunum.

Ég tel mikilsvert að í þessu nýja frv. er áfram í hinni nýju deild búið þannig um réttindaumhverfið að því er skipað með lögum hvað varðar ellilífeyri, örorkubætur, makalífeyri og barnalífeyri. Örorkubótarétturinn er gerður fyllri en hann hefur verið og sambærilegur við það sem almennt gerist, en eldri ákvæði gilda að mestu áfram fyrir B-deildina.

Það er, herra forseti, held ég óþarfi að flytja mikið af rökum fyrir þessum breytingum. Það er held ég öllum ljóst og hefur lengi verið að mjög brýnt er að taka á þessum málum. Þar ber margt til. Mér eru þar efst í huga fyrst og fremst ýmsar lagfæringar sem nauðsynlegar voru á réttindaumhverfinu sjálfu og að gera það meira í takt við nútímann. En það er einnig eðlilegt að tekið sé mið af breytingum sem orðið hafa annars staðar, þ.e. hvernig réttindin hafa verið að breytast og meðferð mála hjá öðrum lífeyrissjóðum hafa breyst, hvernig meðferð ríkisfjármálanna sjálfra hefur verið að breytast, uppfærsla skuldbindinga og annað þar fram eftir götunum. Einnig mætti nefna og er reyndar gert í rökstuðningi með frv., hluti eins og verulegar breytingar í verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Einkavæðingin blessuð er nefnd þarna til sögunnar. En síðast en ekki síst, og ég held það langmikilvægasta, er að það hefði verið afar óskynsamlegt að reka þetta kerfi að óbreyttu áfram inn í framtíðina með þeirri miklu uppsöfnun skuldbindinga sem þar var á ferðinni án þess að leggja til hliðar fyrir því.

[16:00]

Í reynd má segja að lífeyriskerfi landsmanna hafi að þessu leyti, að þessum hluta sem varðar Lífeyrissjóð opinberra starfsmanna, verið gegnumstreymiskerfi en ekki uppsöfnunarkerfi hvað varðaði það sem skorti á að lagt væri til hliðar fyrir skuldbindingum framtíðarinnar. Þessu er nú breytt og því fagna ég þar sem ég er orðinn enn sannfærðari um það en ég hef áður verið að uppsöfnunarkerfi lífeyrisréttinda er mikil blessun fyrir okkur borið saman við hitt að lenda í því að byggja þar á gegnumstreymiskerfi. Og rétt til að upplýsa það, herra forseti, þá hefur ræðumaður algjörlega skipt um skoðun í þessu efni á svona 5--10 árum því ég var óskaplega hrifinn af því í gamla daga að þetta ætti að vera gegnumstreymiskerfi en nú hef ég sem sagt vitkast og er orðinn þeirrar skoðunar --- og þarf svo sem ekki mikla speki til í ljósi þeirra hluta sem nú blasa við í lífeyris- og skuldbindingum víða um lönd og ekkert síður í framtíðinni hér á Íslandi og liggur í breyttri aldurssamsetningu í þjóðfélögunum o.s.frv. --- að það er miklu betra að mynda lífeyrisréttindin með þeim hætti að þau endurspegli það sem á hverjum tíma hefur verið lagt til hliðar til að standa straum af þeim útgjöldum.

Herra forseti. Ég lít svo á að hér sé á ferðinni mjög mikilsverður áfangi hvað varðar nýskipan lífeyrismála í heild sinni, ekki bara hvað varðar opinbera starfsmenn heldur líka áfangi á vonandi vegferð okkar til þess að koma á framtíðarlífeyriskerfi allra landsmanna með vel vörðum og tryggum réttindum. Það er að sjálfsögðu ljóst að þetta frv. og þessi tilhögun breytir í sjálfu sér ekki miklu hvað varðar það að samræma lífeyrisréttindin yfir allan vinnumarkaðinn og ég tel ekki rétt að draga neitt undan í þeim efnum. Það hefur þegar komið fram í orðaskiptum að í sjálfu sér breyta þessar breytingar ekki miklu hlutfallslega um þá stöðu sem þar er uppi, enda varla við því að búast. Það er þó þannig að því marki sem umbúnaður þessa frv. eða hins nýja fyrirkomulags á lífeyrisréttindum starfsmanna hins opinbera verður meira í samræmi við það sem gerist annars staðar, að þá er þar að sjálfsögðu samræming á ferð, hvað umbúnaðinn snertir, og það hlýtur að vera jákvætt. En ég segi alveg hiklaust að ég tel að mestu máli skipti að þessi niðurstaða verði mönnum hvatning til þess að sækja þau réttindi á komandi árum sem annars staðar eru lakari og jafna lífeyrisréttindin almennt yfir íslenska vinnumarkaðinn þannig, þ.e. jafna þau réttindi upp á við ef svo má að orði komast því að við höfum séð allt of mikið af hinu á undanförnum mánuðum og missirum að breytingar á sviði félagslegra réttinda ýmiss konar eða vinnuréttinda hafa verið niður á við og í afturför frá því sem við höfum búið við.

Það liggur í hlutarins eðli að félagsmenn í öðrum lífeyrissjóðum og forustumenn þeirra hljóta að meta sína stöðu að einhverju leyti í ljósi þessarar niðurstöðu og ég tel ekki ástæðu til að tala neinni tæpitungu um það. Það liggur algerlega í hlutarins eðli að það mun gerast. Og varðandi félagsmenn í lífeyrissjóðum almennu verkalýðshreyfingarinnar, þá hlýtur það að snúa hvort tveggja að starfsmönum í almennum verkalýðsfélögum sem vinna hjá sömu vinnuveitendum og opinberir starfsmenn en einnig yfir vinnumarkaðinn allan og almennt. Ég endurtek að ég vona að þessi niðurstaða verði mönnum fyrst og fremst hvatning til þess að sækja fram til aukinna réttinda yfir allan íslenska vinnumarkaðinn hvað þetta snertir.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, segja að mér finnst niðurstaðan í þessu máli og þá kannski fyrst og fremst hvernig að henni hefur verið unnið á síðustu mánuðum vera nokkuð merkileg í ljósi þeirra samskipta sem uppi voru milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisvaldsins á sl. vori. Við erum komin býsna langan veg frá framgangi hæstv. félmrh. og hæstv. fjmrh. hvað varðar frumvörpin á sl. vori sem keyrð voru fram í fullkominni andstöðu við verkalýðshreyfinguna og þá á ég að sjálfsögðu við að hér hefur verið lögð fram samkomulagsniðurstaða og því fagna ég. Mönnum ber sannmæli og það er sjálfsagt að fagna því að hæstv. fjmrh. er hér í öðru ljósi og segja má að einhverju leyti kannski í öðru hlutverki, enda maðurinn fjölhæfur eins og fram hefur komið, heldur en hann var á sl. vori þegar hann var að troða í gegnum Alþingi með stjórnarliðið handjárnað á bak við sig ásamt hæstv. félmrh. frumvörpunum um vinnumarkaðinn.

Ég tel að þetta mál sé í allt öðru og jákvæðara ljósi og á ég þar við innihaldið þar sem hvorki er gerð tilraun til þess að hrófla við þegar áunnum réttindum, og skárra væri það nú, né heldur því lífeyrisréttindaumhverfi eða samhengi sem ætlað er að byggja upp með þessum nýja sjóði inn í framtíðina en þar er grundvallarviðmiðunin sambærilegt heildarréttindakerfi og við búum við í dag.

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál þó mikilsvert sé. Eðli málsins samkvæmt hlýtur það að þurfa að koma til ítarlegrar skoðunar í viðkomandi þingnefnd og ég á þess kost að taka þátt í þeirri vinnu þar þannig að ég læt máli mínu lokið að þessu sinni.