Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 16:07:15 (1732)

1996-12-03 16:07:15# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[16:07]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég bið hv. ræðumann að leggja mér ekki orð í munn. Ég held að ég hafi alls ekki nefnt á nafn þetta hugtak sem hv. þm. virðist vera ofarlega í huga, þ.e. gjafir eða örlæti og mildi hæstv. fjmrh., enda snýst þetta fyrir mér ekki um það. Það hefur einmitt komið fram í mjög málefnalegri umræðu nákvæmlega á hvaða grunni þetta samkomulag er reist, sem sagt þessum, sem ég vona að hv. þm. hafi meðtekið og skilið og sé ekki að vefengja, að annars vegar sé ekki hróflað við þegar áunnum réttindum og hins vegar byggi frv. á sambærilegum réttindagrunni og nú er fyrir hendi í samskiptum þessara aðila, opinberra starfsmanna við vinnuveitendur sína. Þar er auðvitað um fleiri en ríkið að ræða og í vaxandi mæli, eins og hæstv. fjmrh. minnti á, er þetta málefni annarra opinberra aðila, og þá fyrst og fremst sveitarfélaganna, en hugsanlega og að nokkru leyti einnig fleiri ríkistengdra aðila að greiða. Og þá kemur þar með svarið við spurningu hv. þm.: Það eru launagreiðendurnir og starfsmennirnir sem mynda þessi réttindi, annars vegar starfsmennirnir sem nú taka að greiða af heildarlaunum sínum, breiðari stofni en áður var og greiða allt til starfsloka, og svo auðvitað vinnuveitandinn rétt eins og það hefur verið. Um það er þetta frv. að sjálfsögðu engu að breyta því að á bak við skuldbindingarnar hefur staðið ábyrgð launagreiðendanna. Að þessu leyti er því ekki verið að hrófla við því fyrirkomulagi sem í gildi hefur verið.