Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 16:09:46 (1734)

1996-12-03 16:09:46# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[16:09]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það kunna að vera alveg nýjar upplýsingar og ný upplifun fyrir hv. ræðumann að átta sig á því að opinberir starfsmenn vinna hjá okkur. Þeir vinna hjá okkur og fyrir okkur, hjá þjóðinni. Og þar af leiðandi hefur þjóðin að sjálfsögðu borgað þeim laun, þeir sem greiða skatt til ríkisins og þeir sem greiða skatt til sveitarfélaganna. Er hv. þm. á því að þetta geti verið einhvern veginn öðruvísi? Að sjálfsögðu hefur þetta verið svona og verður svona. Á meðan opinberir starfsmenn eru ráðnir af hinu opinbera til að sinna opinberum störfum og skyldum og samfélagslegum verkefnum, þá hljóta kaupgreiðslurnar að koma þaðan. Lífeyrisréttindi þessa hóps eru að sjálfsögðu hluti af kjörum hans og um þau hefur verið samið og er verið að gera hér með tilteknum hætti. Mér finnst það satt best að segja ekki vera nýjar upplýsingar sem erindi eigi inn í þessa umræðu að þetta sé hluti af þeim útgjöldum sem þar með stofnast til vegna samneyslunnar eða opinberrar umsýslu í landinu, að þeir sem greiða þeim kaup inni sömuleiðis þessar greiðslur af hendi.