Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 16:46:12 (1744)

1996-12-03 16:46:12# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[16:46]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Frv. það sem við ræðum í dag varðar tvo lífeyrissjóði, þ.e. Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga. Samkvæmt tryggingafræðilegri úttekt á þessum sjóðum miðað við síðustu áramót var samtals áunnin skuldbinding 111 milljarðar kr., miðað við ákveðnar forsendur. Hvernig sjáum við fyrir okkur slíka upphæð? Þetta er t.d. tekjuskattur ríkissjóðs í fjögur til fimm ár eða 12 þúsund íbúðir, 10 millj. kr. hver, t.d. allar íbúðir á Vestfjörðum, á Norðurl. v., á Norðurl. e. og jafnvel á Austurlandi. Þetta er skuldbindingin, áunnin skuldbinding nú þegar. Eða þetta eru 800--900 þús. kr. á hvern vinnandi mann í landinu, um það bil 1,7 millj. á hverja fjögurra manna fjölskyldu ef við gerum ráð fyrir tveimur vinnandi og tveimur börnum.

Krafa opinberra starfsmanna á hendur ríkinu eru 4 millj. á hvern opinberan starfsmann. Þetta er krafan. Þessi skuldbinding jókst á síðasta ári um 9--10 milljarða kr. Þar fór Selfoss. Allar íbúðir á Selfossi samsvara aukningunni á skuldbindingunum á síðasta ári, eða opinberir starfsmenn fengu hálfa milljón hver í aukningu á skuldbindingu á síðasta ári. Þetta stafar náttúrlega af launahækkunum sem þeir fengu sem auka skuldbindingu sjóðsins. Þessa skuldbindingu munu Íslendingar, þ.e. þeir sem ekki eru opinberir starfsmenn, þurfa að greiða. Þetta er eign opinberra starfsmanna og þetta er skuld hinna. Ég skil ekki í því að forusta almennu verkalýðshreyfingarinnar, ASÍ, skuli ekki líta á málið frá því sjónarhorni að þetta eru skattar sem eftir er að innheimta. Þetta eru áunnu réttindin.

Ef við reiknum með því að núverandi opinberir starfsmenn fái að auka réttindi sín áfram, þá kemur fram í þessari sömu tryggingafræðilegu úttekt sem ég gat um áðan, að skuldbindingin vex upp í 158 milljarða kr., þ.e. að 45 milljarðar kr. bætast við ef opinberum starfsmönnum er heimilt að halda áfram að ávinna sér þessi réttindi. Þar bætast við tæplega 2 millj. kr. á hvern opinberan starfsmann. Þetta eru gífurlegar tölur og menn þurfa að hafa þetta í huga og líta á dæmið í heild sinni.

Herra forseti. Inn í þetta dæmi kemur og flækir það verulega, tekjutrygging almannatrygginga, samspil lífeyrissjóðanna og almannatrygginga. Þar er nefnilega tekið til baka það sem veitt er í lífeyrissjóðunum að einhverju leyti. Þetta á við um alla lífeyrissjóði, ekki bara LSR og þessi munur á milli lífeyrissjóðanna fer minnkandi eftir því sem öðrum lífeyrissjóðum vex ásmegin. En þarna er óneitanlega þessi mikla skuldbinding að hluta til tekin til baka.

Herra forseti. Á þessu vandamáli eru nokkrar hugsanlegar lausnir eða aðallega tvær. Vandamálið sem um er að ræða er í mínum huga að stöðva aukningu á skuldbindingu sem ekki hefur verið greidd. Í öðru lagi er vandamálið sem getið er um hvernig við getum skipt þessari skuldbindingu hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins á launagreiðendur sem verða sífellt fleiri. Sveitarfélögin borga inn, starfsmenn stjórnmálaflokka og nokkrir sparisjóðir. Hvernig getum við skipt þessum skuldbindingum sem hingað til eru eingöngu á ríkinu á hina ýmsu launagreiðendur?

Síðan er þriðja vandamálið og það er mismunurinn á vinnumarkaði sem bent hefur verið á. Við erum ekki með einsleitan vinnumarkað. Fólk sem vinnur hjá ríkinu er með allt önnur kjör í lífeyrismálum og það er ekki borgað fyrir það vegna þessara kjara. Þar eru auk þess bara dagvinnulaunin tryggð sem er óhagkvæmt fyrir opinbera starfsmenn, en til hagsbóta borga þeir bara iðgjöld í 30 ár. Þessi sjóður er á skjön við aðra sjóði á hinum almenna vinnumarkaði og ruglar dæmið.

Svo eru geysilega flóknar reglur um lífeyri frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Hann starfar í reynd samkvæmt þremur reglugerðum. Það eru í fyrsta lagi venjulegar reglur, iðgjald greitt í 30 ár, 2% iðgjaldaréttindavinnsla á hverju ári og lífeyrisaldur 65 ára. Þetta er fyrsta reglan. Önnur reglan er svokölluð 95 ára regla sem er svo flókin að ég ætla ekki að hafa hana eftir og þriðja reglan er fyrir vaktavinnuálag og vaktavinnukaup þar sem gilda stigareglur eins og í almennu sjóðunum, reyndar með 2% fyrir hvert ár. Þetta eru mjög flóknar reglur og ákaflega erfitt að átta sig á þeim.

Á þessu máli sé ég tvær lausnir og önnur er það frv. sem ég flutti um lífeyrissjóð alþingismanna og ráðherra á síðasta þingi sem fólst í því í stuttu máli að menn gætu valið um að hafa hærri laun og venjulegan lífeyrisrétt eða núverandi laun og góðan lífeyrisrétt. Ég fór af stað með lífeyrissjóð þingmanna vegna þess vandkvæðis að allir sem um þetta mál fjalla eru opinberir starfsmenn, allir. Þingmenn hafa þessi sömu réttindi og allir í ráðuneytunum eru með þessi sömu réttindi þannig að allir sem um þetta mál véla hafa þessi sömu réttindi. Og hver gætir þá hagsmuna þessara 80% Íslendinga sem ekki eru opinberir starfsmenn?

Samkvæmt niðurstöðum ofangreindrar tryggingafræðilegrar úttektar á Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins þyrfti iðgjaldið til framtíðar, burt séð frá áunnum réttindum, bara framtíðariðgjaldið, að vera 22--26% af dagvinnulaunum. Nota bene, það fer eftir forsendum, hvort maður notar 2% eða 3% ávöxtunarkröfu umfram laun, hvort iðgjaldið þarf að vera 22% eða 26%. Þarna vantar 12--16% á núverandi iðgjald og það er þá mjög auðvelt bara hreinlega að láta ríkissjóð og launagreiðendur greiða inn þetta 22--26% iðgjald. Þannig mætti leysa þann vanda.

Sú lausn sem við erum að ræða í dag leysir ekkert af þessum vandamálum, ekkert. Skuldbindingin heldur áfram að vaxa. Það er ekkert sem hindrar það að hún vaxi. Opinberir starfsmenn munu halda áfram að afla sér mjög góðra lífeyrisréttinda án þess að þeir hafi verið spurðir hvort þeir vilji það. Það að geta skipt skuldbindingunum á milli launagreiðenda er heldur ekki leyst vegna þess að hjá þeim starfsmönnum sem velja að vera áfram með gömlu réttindin er borgað inn 10%. Ekkert er því leyst í því sambandi að skipta skuldbindingum milli launagreiðenda.

Mismunur sem á vinnumarkaðinum helst enn frekar. Flestir háskólamenn munu meira að segja geta átt aðild að sjóðnum umfram það sem er í dag. Allir félagsmenn í BHM, ekki BHMR, BHM eiga rétt á að borga í sjóðinn. Það eru verkfræðingar, læknar og arkitektar sem ekkert vinna hjá ríkinu. Þeir munu eiga rétt á að borga í sjóðinn ef launagreiðendur þeirra samþykkja það. Þetta mun valda miklum óróa á vinnumarkaðinum. Nú munu þessir aðilar fara að gera kröfu um að vinnuveitandinn borgi inn í þennan nýja sjóð af launum í stað þess að fá launahækkanir. Þó að mönnum sé gert að borga þetta miklu hærra iðgjald eða launagreiðenda sé gert að borga hærra iðgjald inn í lífeyrissjóðinn sé ég ekki að menn muni sætta sig við lægri laun fyrir bragðið. Ég sé ekki að opinberir starfsmenn muni meta það að iðgjöld þeirra þyrftu að vera 16--26% og sætta sig við lægri laun sem því nemur. Þeir segja: ,,Ég kæri mig ekkert um þessi miklu lífeyrisréttindi. Ég vil bara hafa almenn lífeyrisréttindi. Ég horfi bara á það sem kemur í budduna.`` Þeir munu því ekki sætta sig við lækkun á launum vegna þessa samkomulags.

Reglurnar verða enn flóknari. Nú er komin enn ein reglugerðin fyrir Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins þannig að það vandamál er ekki leyst heldur. Þetta samkomulag leysir ekkert. Það er mikill galli við þetta samkomulag að iðgjaldið, þ.e. ríkisábyrgðin, helst. Iðgjaldið er breytilegt. Það mun hækka mjög mikið ef annaðhvort dánarlíkur Íslendinga minnka eða þá að vextir lækka sem getur haft mjög afdrifarík áhrif á allt lífeyriskerfið.

Núverandi starfsmenn geta ekki valið og það er einn versti ókostur við núverandi kerfi, um hærri laun og venjulegan lífeyrisrétt eða lakari laun, núverandi laun og betri lífeyrisrétt. Þeir eru ekki spurðir. Þetta frv. byggir á forsjárhyggju. Það er haft vit fyrir mönnum. Mér finnst mjög miður að fulltrúar opinberra starfsmanna treysti þeim ekki betur en þetta til að leyfa þeim að velja eða hafa vit á því að velja hvort þeir vilja góðan lífeyrisrétt og venjuleg laun eða lakari laun og betri lífeyrisrétt. Þeir mega ekki velja um það. Það finnst mér aðalvandamálið í þessu kerfi.

Frv. er auk þess, ef maður lítur á stjórnina, þá er það mjög miður. Það er gert ráð fyrir því að einn fulltrúi frá BSRB komi inn í sjóðstjórnina, þ.e. 12% af stjórnarmönnum. En þeir eru samt sem áður 75--80% af greiðendum. Af hverju í ósköpunum var bara ekki tekin inn kosning í stjórn þannig að sjóðfélagarnir megi kjósa sér stjórn á þeim aðalfundi sem á að halda? (Gripið fram í.) Eru það tveir fulltrúar? Já, þá eru það 24%, fyrirgefðu. Takk fyrir.

Þá finnst mér líka mjög miður að opinberir starfsmenn eru ekki spurðir hvort þeir vilji fórna einum til tvennum mánaðarlaunum á ári alla starfsævina til þess að geta farið á lífeyri fimm árum fyrr. Þeir eru ekki spurðir að því. Það getur vel verið að fólk hafi meira við peningana að gera þegar það er að koma sér upp húsnæði og ala upp börn heldur en seinna þegar það er komið á eftirlaun og einhver kynni nú að velja það.

Ef þetta frv. nær fram að ganga mun það hindra að hægt verði að velja á milli lífeyrissjóða. Hvernig eiga menn að geta valið á milli lífeyrissjóða eins og margir hv. framsóknarmenn hafa lagt áherslu á? Þeir geta ekki valið á milli lífeyrissjóða þegar einn sjóðurinn er með miklu hærra iðgjald og veitir miklu betri réttindi. Þessi réttindi eru ekki háð aldri eins og þyrfti að vera þannig að ég sé ekki annað en að þetta frv., ef það nær fram að ganga, muni bæði negla niður þessi miklu réttindi sem um er að ræða og koma í veg fyrir að tekið verði upp það kerfi að menn geti valið milli lífeyrissjóða.

Það hefur verið rætt að þörf sé á auknum sparnaði. Hæstv. utanrrh. nefndi að þörf væri á auknum sparnaði í þjóðfélaginu og þess vegna er gott að menn borgi meira í lífeyrissjóð. En þetta er þvingaður sparnaður. Þetta er ekki sparnaður sem fólk vill heldur er hann þvingaður fram. Eins og ég benti á áðan, munu menn ekki meta þetta háa iðgjald sem þeir eru skyldaðir til að borga inn í lífeyrissjóð sem launahækkun, heldur munu þeir líta á peningana sem koma í budduna í komandi kjarasamningum sem launahækkun.

(Forseti (GÁ): Ég bið hv. þingmenn að hafa hljóð í þingsal. Þetta er truflandi fyrir ræðumann.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir.

Herra forseti. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins starfar samkvæmt lögum frá hinu háa Alþingi. Hið háa Alþingi hefur óskorað vald til þess að breyta þeim lögum sem og öðrum lögum, en það hefði að sjálfsögðu áhrif á kjarasamninga opinberra starfsmanna sem standa fyrir dyrum ef kerfinu verður breytt. En er ekki í lagi að borga opinberum starfsmönnum það iðgjald sem ríkið ætlar að fara að borga inn í lífeyrissjóðinn, er það bara ekki í lagi? Er ekki í lagi að hækka laun opinberra starfsmanna um u.þ.b. 10% vegna þessara miklu lífeyrisréttinda sem þeir eru að fá óbeðið? Þeir vilja það ekki. Það mætti hækka laun allra ríkisstarfsmanna um u.þ.b. 10% ef þeir nytu venjulegra lífeyriskjara burt séð frá öðrum hækkunum.