Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 17:03:37 (1746)

1996-12-03 17:03:37# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[17:03]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég hef aldrei lagt til að áunnin réttindi opinberra starfsmanna verði af þeim tekin, enda eru þau stjórnarskrárvarin. Hins vegar mætti gera mönnum tilboð um að kaupa þau á einhverri ávöxtunarkröfu sem þeim finnst þeir geta ávaxtað peningana betur heldur en ríkið og þannig gæti ríkissjóður hagnast.

Það að borga út launin sem launahækkun eða sem iðgjald kemur í nákvæmlega sama stað fyrir skattgreiðendur og ríkissjóð. Það breytir engu nema því að menn eru komnir með sambærileg lífeyrisréttindi og sambærileg laun og á almennum vinnumarkaði. Þar með væri búið að ná fram því markmiði að hafa ein lífeyrisréttindi, almenn lífeyrisréttindi, og einn vinnumarkað. En það næst ekki fram með þessu frv.

Ég gleymdi að geta þess áðan að það að geta valið á milli deilda í sjóðnum kostar óhemju marga milljarða. Ég veit ekki hve marga, það hefur ekki verið reiknað út. Tryggingafræðingar hafa ekki reiknað það út og það mun kosta marga milljarða sem segir okkur að þessi nýja lausn er dýrari heldur en sú sem var til staðar áður, hún er dýrari til framtíðar. Ég skil því ekki af hverju í ósköpunum hæstv. fjmrh. féllst á það að borga eitthvert lausnargjald fyrir það að veita mönnum jafngóð réttindi og þeir höfðu haft áður, að fullu leyti jafngóð og sambærileg.