Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 17:05:07 (1747)

1996-12-03 17:05:07# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[17:05]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og heyra má þá erum við hv. þm. ákaflega sammála um marga hluti þó að við höfum orðið að fara aðrar leiðir í þessu máli en hv. þm. vildi. Ég þekkti hans leiðir að sjálfsögðu því að þær liggja fyrir í frumvörpum hér á hinu háa Alþingi.

Ég held hins vegar að öllum sé ljóst að við erum að taka hér skref í rétta átt. Við erum að taka skref í átt til þess að auðveldara verði að samræma lífeyriskerfi allra landsmanna. Það er auðveldara eftir þessa breytingu að taka fleiri skref í átt til eins vinnumarkaðar. En það er hins vegar hárrétt sem hv. þm. segir að það er ekki gert með þessu skrefi sem hér er tekið.

Við getum líka ímyndað okkur að það verði breytingar á hinum almenna vinnumarkaði, t.d. að meiri fjármunir verði lagðir til hliðar og mönnum tryggð betri réttindi ef þeir kjósa svo. Það kann líka að gerast á næstu árum að opinberir starfsmenn vilji minni réttindi og hærri laun vegna þess að þeir séu oftryggðir. Það á eftir að koma í ljós. Það sem hins vegar skiptir öllu máli nú er að kerfin eru gagnsæ, það er auðvelt að gera samanburð og það er augljóst að hægt er að taka fleiri og fleiri skref úr báðum áttum til samræmingar, enda veit hv. þm. að um þessar mundir hafa verið haldnir fundir fulltrúa opinberra starfsmanna og launþega á vinnumarkaðinum þar sem verið er að ræða um frekari samvinnu í framtíðinni. Ég mundi fagna því ef af slíkri sameiningu yrði því að það gerði ríkisrekstrinum mjög gott og mikið gagn, gerði hann að mínu mati hreyfanlegri og sveigjanlegri.