Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 17:07:06 (1748)

1996-12-03 17:07:06# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[17:07]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sammála því sem hæstv. fjmrh. heldur fram að það sé auðveldara að taka frekari skref. Núna er einmitt tækifærið til þess að taka skref sem virkilega gæti breytt einhverju, þ.e. að leyfa opinberum starfsmönnum og treysta þeim til þess að velja sér sín lífeyrisréttindi. Það er tækifæri sem við höfum haft og erum að glutra niður með þessu frv. því með því er þeim gert að ávinna sér réttindi og ef breyta á frá því aftur, þá þarf aftur að setja ný lög um að menn geti valið. Ég tel að menn séu að missa af tækifæri núna. Sjóðfélagar geta ekki valið og þetta frv. gerir réttindin ekkert gagnsærri. Í gömlu deildinni, gömlu starfsmennirnir sem ekki munu velja að fara í A-deildina, veit enginn hvað iðgjaldið er hátt. Auðvitað er enginn vandi að reikna það. Það þarf að vera 22--26% samtals. En það er jafnógagnsætt eftir sem áður. Þar er ekki reiknað út iðgjaldið. Ég er þess vegna ekki sammála því að þetta kerfi auðveldi að taka frekari skref né að það geri kerfið gagnsærra. Þvert á móti er ég sannfærður um það að ef þetta frv. verður að lögum, þá verði mjög erfitt að taka það upp aftur og sérstaklega að ná til baka þeim yfirréttindum sem felast í því að menn geti valið á milli deilda. Það eru mjög góð réttindi og ég mun leggja áherslu á það í starfi mínu í efh.- og viðskn. að það verði skoðað mjög gaumgæfilega að þau réttindi nái ekki fram að ganga.