Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 17:25:05 (1750)

1996-12-03 17:25:05# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[17:25]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að lýsa ánægju með það frv. sem hér er til umræðu og hvernig staðið hefur verið að öllum vinnubrögðum í tengslum við smíði þess. Lífeyrismál eru viðfangsefni kjarasamninga eins og margoft hefur komið fram í umræðum um þetta mál og ekki síst af hálfu þeirra sem hafa sett fram gagnrýni á þetta frv. Nefni ég þar hv. þm. Pétur Blöndal sem spurði ítrekað hvort ekki hefði fremur komið til álita að semja um önnur launakjör en þau lífeyrisréttindi sem kveðið er á um í þessu frv.

Með frv. erum við komin langan veg frá þeirri umræðu sem fram fór á Alþingi síðasta vor því gagnstætt því sem gerst hefði með því frv. sem þá lá fyrir er núna tryggt að réttindi þeirra sem þegar hafa hafið greiðslu til sjóðsins verði ekki skert og einnig eru varin réttindi þeirra sem þegar eru komnir á lífeyri. Með þessu frv., ef af lögum verður, er tryggt að þegar á heildina er litið eru réttindi í nýja kerfinu jafnverðmæt og þau voru í því gamla. Það sem þar er umfram er til komið vegna aukinna greiðslna af hálfu launamannsins því nú verða dregin 4% af yfirvinnu hans, en fjmrn. vildi hins vegar ekki fallast á að það framlag sem kæmi frá hendi launagreiðandans af yfirvinnu starfsmanna yrði til þess að auka réttindin.

Af hálfu fjmrn. hefur verið unnið vel að þessu máli í sumar og haust og er ljóst að sú mikla samstaða sem skapaðist með launafólki í vor gerbreytti og styrkti samningsstöðu samtaka launafólks þannig að báðir aðilar voru reiðubúnir að ræða þessi mál af sanngirni og á jafnréttisgrundvelli.

Það er margt sem mælir með því að gera breytingar á lífeyriskerfinu. Þannig er ljóst að það kerfi sem við höfum búið við gefur ekki möguleika á þeim sveigjanleika sem nauðsynlegur er, t.d. vegna tíðra breytinga eða verkefnaflutnings sem á sér stað á milli ríkis og sveitarfélaga svo dæmi sé tekið eða vegna breytinga sem gerðar eru á rekstrarformi opinberra stofnana þegar þær eru t.d. gerðar að hlutafélagi. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins hefur að sönnu, samkvæmt þeim lögum sem hann starfar eftir, heimildarákvæði til að taka aðskiljanlega aðila inn í sjóðinn en það heimildarákvæði hefur ekki verið nýtt síðustu árin. Fyrir því hefur einfaldlega ekki verið meiri hluti í sjóðnum. En með þessum breytingum er opnað fyrir aukinn sveigjanleika.

Það er margt annað sem veldur því að mikilvægt er að gera breytingar á sjóðnum. T.d. hefur lengi verið brýnt að bæta örorkuréttinn, en hjá opinberum starfsmönnum hefur hann verið mun lakari en gerist á almennum vinnumarkaði. Það sem þó kannski veldur því fyrst og fremst að mikill þrýstingur hefur skapast á því að gera breytingar á sjóðnum er að menn vildu tryggja samtímagreiðslur til sjóðsins, að jafnan stæðust á greiðslur sem renna inn í sjóðinn og þær skuldbindingar sem sjóðurinn tekur á sínar herðar. Hins vegar vil ég segja og ekki síst í ljósi þeirra umræðna sem hér hafa farið fram og ekki aðeins hér heldur einnig í þjóðfélaginu almennt á liðnum mánuðum, missirum og árum, að vandi Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins í gegnum tíðina hefur verið stórlega ýktur. Hér áðan fengum við að heyra að skuldbindingarnar væru vel yfir 100 milljarða, 111 milljarðar voru nefndir. En ég vil minna á að við erum að tala um líkindi, þetta er líkindareikningur. Svo dæmi sé tekið, þá breytir sú ávöxtunarprósenta sem lögð er til grundvallar verulega miklu, t.d hvort miðað er við 2% ávöxtun eða 3%, þ.e. 1% vegur þarna 20 milljarða í slíkum reikningum eftir því hvort við notum ávöxtunarprósentuna 2% eða 3%. En þess má geta að eignir sjóðsins á síðasta ári voru ávaxtaðar með 6,2% raunávöxtun, miklu meiri en þær hlutfallstölur sem eru lagðar til grundvallar sýna.

[17:30]

Það er annað sem veldur því að ástæða er til þess að ætla að þessi halli og þessi bága staða lífeyrissjóðsins sé ýkt. Menn gleyma því nefnilega að líta heildstætt á þetta dæmi. Við erum sífellt að tala um skattborgarana í þessu efni og því verðum við líka að líta á stöðuna alla eins og hún blasir við frá þessum sama skattborgara. Ef við lítum á lífeyriskerfið annars vegar, ef við lítum á almannatryggingakerfið og í þriðja lagi ef við lítum á hagsmuni ríkisins sem launagreiðanda, þá held ég að muni koma í ljós þegar þetta er allt saman skoðað í einu samhengi að staðan er ekki svo ýkja bágborin. Sannleikurinn er sá að vegna sterkrar stöðu Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hafa sparast á undanförnum árum og áratugum tugir milljarða kr. í almannatryggingakerfinu, tugir milljarða. Þetta er aldrei tekið til greina í þessum útreikningum. Og hafa menn íhugað þá staðreynd að ríkið, opinberar stofnanir, hafa ekki greitt af heildartekjum, einvörðungu af dagvinnu og vaktaálagi? Þar erum við einnig að tala um stórar upphæðir, sennilega 600--700 millj. kr. á ári þannig að ef dæmið er allt skoðað í heild sinni, þá hafa hagsmunir skattborgarans verið bærilega tryggðir með því kerfi sem við búum við núna.

Við erum hins vegar að fara núna inn í nýtt umhverfi þar sem launagreiðslur og réttindi eru í síauknum mæli settar á ábyrgð einstakra stofnana. Það er nokkuð langt síðan farið var að heimfæra skuldbindingar lífeyrissjóðsins á einstakar stofnanir og hið sama er að gerast um önnur réttindi. Sú krafa er að vaxa að einstakar stofnanir, einstakir launagreiðendur, verði látnir standa skil á þeim skuldbindingum sem þeir takast á herðar. Allt þetta veldur því að mikilvægt er að gera breytingar á þessu kerfi.

Þegar menn eru að bera saman það kerfi sem við búum við núna við það sem við erum að fara inn í, er mjög varasamt að einblína á iðgjaldagreiðslurnar einar. Það er rétt eins og hér hefur komið fram að það hafa verið greidd 10% af föstum launum og vaktaálagi í sjóðinn. Nú verður greitt af heildarlaunum. En greiðslur í sjóðinn hafa komið með öðrum hætti einnig. Þær hafa komið með verðbótum frá launagreiðandanum. Og þegar verðbólgan var mikil, voru þessar verðbótagreiðslur einstakra launagreiðenda --- og við skulum ekki gleyma því að við erum ekki bara að tala um ríkið. Við erum að tala um sveitarfélög sem eiga aðild að sjóðnum og við erum að tala um fjölmargar stofnanir sem hafa átt aðild að sjóðnum sem hafa greitt þessar verðbætur --- í mikilli verðbólgu fyrir tíu árum námu þessar verðbætur um 80% af útgreiddum lífeyri. Nú eru þessar verðbætur orðnar miklu minni, komnar sennilega niður í um 25%.

Ég er að vekja athygli á því að þær breytingar sem hér er verið að gera eru ekki eins byltingarkenndar og þær hljóma. Það er verið að tryggja greiðslurnar í sjóðinn með öðrum hætti. Þær komu áður í iðgjaldagreiðslum og verðbótum. Núna verður þetta tryggt með samtímagreiðslum í gegnum iðgjöldin og þetta tel ég vera til mikilla framfara.

Það hefur líka verið hamrað á því í umræðunni hér að ríkið verði áfram í ábyrgð. Þetta er rangt. Þetta er ekki rétt. Það er verið að afnema ríkisábyrgð á sjóðnum. Við núverandi kerfi er ríkissjóður endanlega ábyrgur gagnvart öllum þeim aðilum sem eiga aðild að sjóðnum, hvort sem það eru sveitarfélög, stjórnmálaflokkar eða einstakar stofnanir. Ríkið er endanlega ábyrgt. Það er verið að afnema þetta núna. Það er verið að breyta fyrirkomulaginu á þann veg að hver einstakur launagreiðandi, ekki einvörðungu ríkið heldur sveitarfélögin einnig og þær stofnanir sem koma til með að eiga aðild að sjóðnum, verður ábyrgur. Ríkisábyrgðin er afnumin. (Gripið fram í: Af hverju þá að vera að takmarka aðganginn?) Að sjónum? (Gripið fram í: Að sjóðnum.) Það er spurning sem er rétt að velta fyrir sér með lífeyriskerfið í heild sinni hvers vegna lífeyrissjóðirnir yfirleitt takmarka aðgang að lífeyrissjóðunum, hvort sem við erum að tala um Lífeyrissjóð verslunarmanna eða Lífeyrissjóð rafiðnaðarmanna eða hvaða sjóð sem við nefnum. Það er umhugsunarefni og umræða út af fyrir sig hvernig aðgangur skuli vera veittur að sjóðnum. En ég vek athygli á því að í lögunum er heimild sem veitir möguleika á rúmri aðild að þessum sjóði.

Ég vil nefna ýmis nýmæli sem ég tel vera mjög til framfara í þessum lögum. Örorkurétturinn er þannig bættur. Hann var mun lakari hjá opinberum starfsmönnum en gerðist innan annarra lífeyrissjóða. Starfsmenn sem misstu starfsorku sem ekki var beinlínis rakið til starfsins á vinnustaðnum áttu ekki rétt til framreiknings á örorkulífeyri. Nú er girt fyrir þetta og ég tel það vera mikla framför. Það er gerð breyting á makabótaréttinum. Hann er þegar á heildina er litið skertur. Þegar á heildina er litið er makabótalífeyririnn skertur. En ég tel þær breytingar sem gerðar eru á makabótalífeyrinum vera skynsamlegar innan þess fjárhagsramma sem menn hafa og hugsunin er sú að eftirlifandi maki fái dágóða summu í skamman tíma. Hann fær framreiknaðan örorkulífeyri í þrjú ár og helminginn af þeirri upphæð í tvö ár til viðbótar nema ef hann hefur börn á framfæri, þá heldur hann þessum réttindum þar til yngsta barn er orðið 22 ára gamalt. Eftirlifandi maki sem er með mörg börn á framfæri eða réttindi barnafjölskyldu sem missir aðra fyrirvinnu eru tryggð. Það er alveg rétt sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vék að áðan að málið horfir öðruvísi við barni einstæðra foreldra sem missir foreldri sitt og ég tek undir að það er brýnt að skoða þau mál en spurning hvort það verði gert innan lífeyrissjóðakerfisins eða í gegnum almannatryggingar sem ég hallast fremur að sjálfur. En varðandi rétt heimavinnandi fólks og lífeyrisréttindi þeirra hafa menn velt því mikið fyrir sér hvernig verði komið til móts við eldri kynslóðina í þessu efni vegna þess að við þær þjóðfélagsbreytingar hafa orðið í landinu á síðustu áratugum, gagnstætt því sem áður tíðkaðist að ein fyrirvinna væri fyrir fjölskyldu, það tíðkaðist hjá stórum hluta þjóðfélagsþegnanna, hefur það færst í vöxt hjá yngra fólki að báðir aðilar vinni úti. Það er frekar hin almenna regla. En til að koma til móts við eldri tíma í þessu efni, er sett inn í frv. sú regla að elsta kynslóðin, þeir sem eru fæddir 1925, fá fullan framreikning á makabótum út ævina og síðan skerðist sá réttur í stigum þar til hann fellur út gagnvart þeim sem fæddir eru eftir 1. janúar 1945. En sú kynslóð, sá aldurshópur sem er þarna á milli, nýtur framreiknaðs makabótaréttar út ævina enda þótt ekki sé um börn að ræða.

Ég ætla ekki að víkja að einstökum efnisþáttum frv. nánar, en vakið var máls á því hvort ekki hefði komið til álita að í stað þess að bæta lífeyrisréttinn eða öllu heldur að varðveita lífeyrisréttinn, semdu menn um hærri laun. Ég held að það þurfi að gera hvort tveggja. Ég held að það þurfi að gera þetta í senn. Það þarf að tryggja fullorðnu fólki góðan lífeyri og um leið þarf að semja um betri launakjör. Við skulum ekki gleyma því að menn hafa tekist á um það hvers konar lífeyriskerfi við eigum að búa við. Annars vegar eru þeir sem eru fylgjandi samtryggingarsjóðum, lífeyrissjóðum og síðan eru hinir sem vilja að menn ávaxti sitt pund hjá fjárfestingarsjóðum eða hreinlega í bönkum. Þessum aðilum er mikið kappsmál að sjálfsögðu að lífeyrisréttindin og greiðslur í samtryggingarsjóðina séu sem allra lægstar þannig að þeir fái meira í sinn hlut, hjá Fjárfangi og Kaupþingi og fjárfestingarsjóðunum og hvað þetta heitir nú allt saman. Hér erum við aftur komin inn í grimma hagsmunabaráttu þeirra sem eiga fjárhagslegra hagsmuna að gæta en það er önnur saga. Það sem menn hafa litið á sem verkefni í þessu efni, þeir sem hafa komið að þessum málum, er að tryggja sem best lífeyrisréttindin. Og ég vil í lokin vekja athygli á því þegar um það er fjallað að verið sé að lögbinda réttindin, það sé verið að festa réttindin launafólki í hag gagnstætt því sem gerist hjá ýmsum öðrum lífeyrissjóðum og flestum lífeyrissjóðum í landinu þar sem réttindin eru breytileg, þá vil ég vekja athygli á því að víða um heim eru lífeyrissjóðir á almennum vinnumarkaði þar sem réttindin eru föst og fastákveðin eins og hér er gert.