Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 17:54:23 (1755)

1996-12-03 17:54:23# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[17:54]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að beina þeirri fyrirspurn til hv. þm., sem er formaður BSRB, hvort ekki hafi komið til greina í hans samtökum að treysta eigin félagsmönnum til þess að velja sér hvort þeir vilji góðan lífeyrisrétt og lág laun eða hærri laun og lakari og venjulegan lífeyrisrétt.

Einnig vil ég spyrja hann að því hvort hann hafi ekki treyst sjóðfélögum sínum til þess að kjósa stjórn sjóðsins lýðræðislegri kosningu.

Varðandi það sem hv. þm. gat um, að vandamálið hefði verið samtímagreiðslur í sjóðinn, þá er það þegar leyst. Ég er hér með tryggingafræðilega úttekt sem segir að iðgjald vegna samtímagreiðslna þyrfti að vera 26% ef miðað er við 2% vexti umfram laun og 21% ef miðað er við 3% vexti umfram laun þannig að þetta er leyst. Það er enginn vandi. Það þarf bara að breyta reglunum um iðgjald launagreiðanda í það að vera útreiknað af tryggingafræðingi og það mundi þá vera 22% iðgjald til launagreiðanda ef sjóðurinn nær 2% ávöxtun umfram laun eða þá 17% iðgjald launagreiðanda ef ávöxtun sjóðsins er 3% umfram laun.

En varðandi vaxtaprósentuna vil ég geta þess að laun opinberra starfsmanna hækkuðu umtalsvert á árinu 1995, sem betur fer, umfram verðlag, umfram vísitölur þannig að sú ávöxtun sem sjóðurinn náði fram, var ekki 6,8% eins og nefnt var heldur eitthvað miklu lægra, jafnvel að ávöxtunin hafi verið núll þegar tekið er tillit til launahækkana og launaskriðs hjá opinberum starfsmönnum innan ársins.