Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 17:58:47 (1757)

1996-12-03 17:58:47# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[17:58]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. gat þess að málin hefðu verið rædd hjá BSRB og BHMR, væntanlega hjá stjórnum og trúnaðarmannaráði og öðrum þeim tengdum. Það sem ég spurði um var hvort hinum einfalda sjóðfélaga, hinum einfalda félagsmanni BSRB sé ekki treystandi til þess að velja hvort hann vilji fórna einum mánaðarlaunum eða tveimur á ári til þess að geta tekið lífeyri 65 ára í stað þess að fara sjötugur á lífeyri, hvort honum sé ekki treystandi til þess að velja þetta sjálfur, hvort hann vilji þessi góðu réttindi, hvort hann þurfi ekki frekar á peningum að halda, 10% launahækkun eða þar um bil til þess að standa undir neyslu sinni í dag, undir því að koma upp húsnæði og koma upp börnum. Þetta var spurningin.

En svo vildi ég lýsa yfir ánægju minni yfir því að formaður BSRB hefur lýst því yfir að ríkisábyrgðin hafi verið afnumin og ég mun þá leggja til að það ákvæði í lögunum sem stendur enn verði líka afnumið.