Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 17:59:55 (1758)

1996-12-03 17:59:55# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[17:59]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvað hv. þm. á við þegar hann er að tala um hinn einfalda mann í BSRB, BHMR, í Kennarasambandi Íslands eða meðal opinberra starfsmanna. Það sem ég er að segja er að í okkar samtökum, á þingum, á fundum sem sérstaklega hefur verið boðað til, á vinnustöðum og almennt innan okkar vébanda hefur verið mikil umræða um lífeyrismál. Hins vegar gefst mönnum að sjálfsögðu kostur á því að greiða atkvæði um kjarasamninga þar sem menn taka mið af öllum þessum þáttum áður en langt um líður. (Gripið fram í.) Já, já, þökk sé skynsamlegum vinnubrögðum að þessu máli. Ég vona að menn muni draga rétta lærdóma af þessum vinnubrögðum þegar menn setjast niður, reyna að sameinast um forsendur og vinna síðan vel og skynsamlega að lausn mála. Ég vildi óska að ríkisstjórnin léti sér þetta að kenningu verða fyrir framtíðarstarf gagnvart samtökum launafólks, því ekki veitir af.