Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 18:02:27 (1759)

1996-12-03 18:02:27# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., KHG
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[18:02]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Það kemur ekki mjög á óvart að fram hafi farið viðræður milli ríkisvaldsins annars vegar og ríkisstarfsmanna hins vegar um breytingar á skipan lífeyrismála. Þau vandamál sem hrannast hafa upp á undanförnum árum í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins eru það mikil að það hlaut að leiða til þess að menn leituðu leiða til að komast frá þeim vandamálum eða a.m.k. að komast frá því að auka við þau frá því sem orðið er.

Í þessu frv. er tekið lítið skref að mínu viti til þess að breyta núverandi fyrirkomulagi og leysa úr þeim vanda sem safnast hefur upp. En vandinn er fyrst og fremst tilkominn af einni ástæðu, þ.e. þeirri að iðgjöld hafa ekki verið í samræmi við skuldbindingar. Það segir í sjálfu sér ekkert til um það hvort menn meti að skuldbindingarnar séu of háar eða of lágar, það segir bara til um það að menn hafa gefið út skuldbindingar sem eru meiri en menn voru tilbúnir að innheimta fyrir. Þetta geta menn gert um ákveðinn tíma en að því kemur að það verður að taka á því vandamáli eins og öllum öðrum sem menn fresta.

Eins og fram hefur komið eru skuldbindingar lífeyrissjóðsins orðnar mjög miklar. Það fer dálítið eftir því hvað menn reikna með mikilli ávöxtun þess fjár sem í sjóðnum er á hverjum tíma hversu háar menn ætla að þær verði en þær nema mjög háum fjárhæðum. Það má orða það þannig að menn hafi frestað skattheimtu og í staðinn safnað skuldbindingum. Að því kemur að menn verða að innheimta þann skatt sem þeir hafa frestað á undanförnum árum og áratugum að innheimta og innheimta þennan skatt þegar kemur að því að borga út skuldbindingarnar.

Ég er ekki að gera athugasemdir við skuldbindingarnar sjálfar. Ég geri ekki ráð fyrir að það sé almennur skilningur manna að þær séu of miklar fyrir hvern og einn sem þær fær. Það sem ég hef áður gagnrýnt í þessu máli er að menn hafi ekki samræmi á milli þess sem þeir lofa og þess sem þeir innheimta.

Í þessu frv. er gengið að nokkru leyti til móts við þessi sjónarmið sem ég hef sett fram og reyndar margir fleiri að því marki að reynt er að stöðva það að í framtíðinni haldi áfram að hlaðast upp skuldbindingar á sama hraða og verið hefur. Þetta er skref í rétta átt að mínu viti. En þetta er líka allt of stutt skref sem skilur eftir stór vandamál. Það skilur í fyrsta lagi eftir fortíðarvandann sem við búum við og hefur verið gerð grein fyrir fyrr í umræðunni og það skilur í öðru lagi eftir það vandamál að þeir sem nú þegar eru aðilar að umræddum lífeyrissjóði og munu verða í svokallaðri B-deild, þar munu halda áfram að safnast upp skuldbindingar umfram það sem iðgjöld standa undir. Og gróft á litið má ætla að menn séu að lofa tíu krónum fyrir hverjar tvær sem innheimtar eru í iðgjöld. Út frá öllum eðlilegum sjónarmiðum í rekstri eða skattheimtu er þetta óæskilegt fyrirkomulag sem menn eiga að leggja af sem fyrst, að eyða meira en þeir afla til að standa undir þeirri eyðslu sem menn ráðgera.

Í öðru lagi, og það er að mínu viti einnig ávinningur af þessu máli umfram það að stöðva vaxandi skuldasöfnun að nokkru leyti, tel ég það kost að færa strax skuldbindingarnar hjá viðkomandi stofnun þannig að sjá megi hvað hver stofnun kostar í reynd. Það er grundvallaratriði þeirra sem vilja halda uppi skilvirkri og glöggri fjármálastjórn, hvort sem það er á opinberum rekstri eða atvinnufyrirtækjum, að kostnaðurinn sé mjög sýnilegur og að mönnum sé ævinlega ljóst á hverjum tíma hver hann er. Þetta atriði skiptir því allverulegu máli og ég hygg að það sé þýðingarmeira en menn ætla við fyrstu yfirsýn.

Þá vil ég víkja að atriðum sem mér finnst ekki vera tekið á eða ekki vera til bóta. Ég hef þegar nefnt í fyrsta lagi að ekki er tekið á þeim vanda sem þegar er orðinn. Í öðru lagi er heldur ekki tekið á þeim vanda sem mun verða áfram í svokallaðri B-deild. Þessi tvö stóru mál eru skilin eftir óleyst. Í þriðja lagi tel ég það ekki skynsamlegt fyrirkomulag í sjóði --- en menn verða að muna að lífeyrissjóður er sjóður sjóðfélaga þar sem menn sameinast um að tryggja hver annan eftir ákveðnum reglum með ákveðnum hætti --- að ákvarða réttindin og síðan að leitast við að laga iðgjöldin að réttindunum. Mér finnst það fyrirkomulag ekki skynsamlegt og það er heldur ekki skynsamlegt vegna þess að almenna lífeyrissjóðakerfið notar það ekki. Það er óskynsamlegt að hafa í grundvallaratriðum ólíka útfærslu á þessu atriði vegna þess mismunar sem skapast við það og þeirrar óánægju sem mun spretta fram og hefur ævinlega verið fyrir hendi út af þessu atriði.

Það er almennt séð óskynsamlegt að búa sér til einhvern veruleika og reyna að tryggja sig fyrir öllum hugsanlegum breytingum í þjóðfélaginu um ókominn tíma eins og menn ætla með því að fastsetja réttindin óháð framtíðinni. Þetta er svipað fyrirkomulag og ekki síður óskynsamlegt en menn viðhafa í því frv. sem við ræddum fyrir nokkru um Landsvirkjun þar sem fram kemur að eigendur Landsvirkjunar hafa búið sér til svona veröld um þá peninga sem þeir segjast hafa lagt fram inn í það fyrirtæki einhvern tímann fyrir 30, 40 eða 50 árum og reikna þá peninga upp eins og aldrei hafi verið til nein áhætta í lífinu og allar fjárfestingar hafi skilað einhverju eftir einhverjum fullkomnum áhættulausum brautum. Það er óskynsamlegt að mínu viti að menn festi sig inni í svona veröld. Sú veröld getur aldrei verið raunveruleiki nema hún gildi fyrir fáa og margir séu látnir standa utan við hana og bera hana uppi. Þess vegna tel ég það ekki skynsamlegt fyrirkomulag sem hér er í frv. um föst réttindi og breytileg iðgjöld. Ég tel það farsælla að hafa það öfugt að menn fastsetji iðgjaldið og ákvarði síðan réttindin út frá þeim. Þeir sem eru í sjóðnum ákvarða sér sín réttindi út frá þeim verðmætum sem í sjóðnum eru og þeir taka þá áhættu að sjóðnum stýrir stjórn og starfsfólk sem á að ávaxta féð og iðgjöldin eiga síðan að ráðast af því hvernig til tekst með þá ávöxtun.

Í þriðja lagi finnst mér ekki eðlilegt, a.m.k. ekki til lengri tíma, ég skal ekki segja að það sé endilega óeðlilegt eins og staðan er nú þar sem menn eru að fikra sig frá tilteknu ástandi, að undanskilja ákveðna ríkisstarfsmenn réttindum til að vera í sjóðnum. En það er gert með þessu frv. að áfram er eins og verið hefur að ákveðnir ríkisstarfsmenn eiga þess ekki kost að vera aðilar að þessum sjóði. Verður þetta atriði enn frekar óeðlilegt þegar haft er í huga að síðan eru ákvæði sem heimila mönnum sem ekki eru ríkisstarfsmenn að vera í sjóðnum. Það verður að hafa í huga að þessi sjóður er býsna góður eins og fram hefur komið. Réttindi hans eru býsna góð. Almennt eru þau betri en menn geta tryggt sér í almennum lífeyrissjóðum. Það er því ávinningur af því að eiga aðild að þessum réttindum. Ég get ekki verið sammála því að það eigi að mismuna starfsmönnum ríkisins hvað varðar þessi réttindi.

Loks vil ég nefna eitt atriði sem ég hef ekki fengið fullnægjandi skýringar á í þessari umræðu og tel að hv. efh.- og viðskn. verði að skoða vandlega og það er kostnaðaraukinn sem er áætlaður að verði vegna þess að menn geti flutt sig á milli deilda. Mér finnst þetta dálítið grunsamlegt ákvæði, a.m.k. átta ég mig ekki alveg á því hvaða ávinningur er af því fyrir ríkissjóð að hafa þennan möguleika. Miðað við þær skýringar sem eru í frv. og hér hafa komið fram er nokkuð ljóst að það virðist vera ávinningur af því fyrir einstaka sjóðfélaga að flytja sig á milli. En ég hef ekki alveg áttað mig á því hver hagur ríkissjóðs er af þessu og hæstv. fjmrh. mætti gjarnan reifa það mál hér á eftir og útskýra fyrir okkur hver hagur ríkissjóðs er af þessari breytingu út frá sjónarhóli fjmrh.

Þá vildi ég vekja athygli á því að mér finnst líka vera óljóst hvað verður um stöðu sjóðfélaga þegar ríkisstofnun er lögð niður eða henni er breytt í hlutafélag eða jafnvel seld. Það er ekki að finna svo ég hafi séð í frv. sæmilegar skýringar á því hvernig ætlast er til að tekið verði á réttindum sjóðfélaga sem starfa í slíkum stofnunum. (Gripið fram í.) Já, hæstv. ráðherra gerir þá grein fyrir því hér á eftir hvernig með það mál verður farið.

Að lokum vil ég nefna eitt atriði sem ég tel að verði að breytast og hygg að muni verða þegar fram líða stundir og það er að afnema ríkisábyrgð á þessum sjóði. Ég er á þeirri skoðun að það sé farsælt og nauðsynlegt að vinna að því að samræma stöðu launþega og draga úr þeim mun jafnt og þétt sem er á milli opinberra starfsmanna og launþega á almennum vinnumarkaði, þeirra sem starfa innan félaga hjá Alþýðusambandi Íslands. Þetta frv. er að nokkru leyti skref í þá átt eins og ég hef getið um og það er svo sem ekki gott að ráða í hvernig þróunin verður hér eftir. En ég er sannfærður um að þetta mál er enginn endapunktur á þeirri leið. Mér sýnist að mál muni þróast frekar þannig að þetta verði aðeins áfangi og muni ekki standa um langa hríð. Það verður knúið á um breytingar á þessum málum til enn frekari samræmingar en er í því frv. sem við erum að ræða núna, m.a. vegna þess að frv. gerir betur sýnilegt þann mun sem er á þessum tveimur lífeyriskerfum. Ég spái því að mönnum reynist erfitt að sætta sig við að búa við mjög mismunandi kerfi en vinna á sama stað og jafnvel mjög svipuð störf. Því sé ég ekki fyrir mér aðra þróun en þá en að þetta sé fyrsta skref til frekari samræmingar á þessum kjörum. Það er svo erfiðara að spá fyrir um það hvort sú samræming þýðir að þeir sem hafi lakari stöðuna bæti sína stöðu upp í þá sem hinir hafa eða hvort mál ganga að einhverju leyti þannig að þeir sem hafa betri kjörin láti af sínu að einhverju leyti til að bæta stöðu hinna sem hafa lakari stöðu. Það er erfiðara að ráða í það en öll jöfnun felur auðvitað í sér að einhver lætur af sínu og einhver fær. Það er erfitt að jafna þannig að enginn láti af sínu og allir fái. Það verður því fróðlegt að sjá hvernig þetta þróast í framtíðinni en mér kæmi ekki á óvart þó að breytingin yrði í þá veru að kjörin mundu jafnast hvað þetta varðar á þann hátt að hvort tveggja gerist --- það batnar hjá þeim sem eru taldir hafa verri stöðu og hinir sem hafa betri stöðu munu missa eitthvað af sínu. En þetta er svo sem ekki það sem fjallað er um hér heldur vangaveltur um það sem kunni að gerast. Ég held að nauðsynlegt sé að menn hafi það í huga því menn verða að hafa augun á því hvert þeir vilja stefna. Í mínum huga er ekkert vafamál að ég tel nauðsynlegt, og ég sagði það hér fyrir ári síðan, að færa vinnumarkaðinn úr þessum tveimur hólfum sem hann er í í dag og færa launþegahreyfinguna saman. Ég tel að hún verði sterkari þannig og þá fyrst og fremst sterkari fyrir þá sem standa lakar.

Herra forseti. Ég hef svo sem ekki meira við þetta að bæta en ég hef þegar látið koma fram. Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. skýri betur stöðu ríkisábyrgðar á þessum sjóði eftir að frv. verður orðið að lögum og stöðu sjóðfélaga sem starfa við stofnanir sem verða lagðar niður eða breytt að formi til eða jafnvel seldar.