Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 18:46:02 (1762)

1996-12-03 18:46:02# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[18:46]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Út af því sem hér hefur komið fram um ríkisábyrgðina og hvernig réttindin eru tryggð til frambúðar, þá vil ég spyrja hvernig sveitarfélögin hafi komið að þessu máli. Nú er það svo að ýmis sveitarfélög eiga aðild að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og vænti ég að ráðherra sé að hlusta á mig. Ég spyr: Er það tryggt að starfsmenn þessara sveitarfélaga njóti þessara nýju réttinda og þá áframhaldandi réttar ef þeir svo kjósa í eldra kerfi?

Ég vil einnig spyrja um kennarana. Nú hefur grunnskólinn flust til sveitarfélaga. Ég geng út frá því og vil bara fá það staðfest hér að þeir njóti þessara sömu ... (Fjmrh.: Hverjir?) Ég er að spyrja um kennarana út af yfirfærslu grunnskólans til sveitarfélaganna, hvort ekki sé tryggt að þeir njóti þeirra réttinda sem eru boðuð í þessu frv. og það til frambúðar.

Einnig vil ég spyrja út af orðum hæstv. ráðherra hér áðan. Hann sagði varðandi almenna markaðinn að t.d. væri hægt að semja um það að í stað launahækkana komi aukin réttindi á almenna markaðinum. Má líta á það svo með hliðsjón af þessum orðum ráðherrans að ráðherrann telji sig hafa verið að semja, að þessi auknu réttindi sem hér eru boðuð bæði varðandi barnalífeyri og örorkulífeyri sé hluti af komandi kjarasamningi við opinbera starfsmenn?