Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 18:52:39 (1766)

1996-12-03 18:52:39# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[18:52]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi umræðu um ríkisábyrgð verður að vera alveg ljóst að í 25. gr. frv. er gert ráð fyrir því að reiknuð sé út árlega iðgjaldaþörf. Hún er reiknuð út fyrir árið 1997 11,5%. Ef forsendur fyrir útreikningi breytast mun iðgjaldaþörfin hækka upp í 17%, 20% eða hvað sem er, ég veit það ekki. Það er skuldbinding sem launagreiðandi tekur á sig, ríkið og aðrir aðilar. Þetta er algerlega ljóst. Ríkisábyrgð með þessari útfærslu er ekki hefðbundin ríkisábyrgð en það verður að vera alveg ljóst að ef t.d. útreikningsvextir breytast, þá getur þessi prósenta rokið upp. Þetta þarf að liggja alveg ljóst fyrir.

Í öðru lagi þarf líka að átta sig á því að flutningur úr B-deild í A-deild þýðir skuldbindingar á launagreiðanda. Í stað þess að greiða 6% af dagvinnu eins og sveitarfélög gera mun hann greiða 11,5% á næsta ári af öllum tekjum. Þetta þýðir ákveðnar skuldbindingar og sveitarfélög velta fyrir sér hvort þau eigi að stofnsetja nýjan lífeyrissjóð.

Menn verða líka að átta sig á því að í 3. gr. frv. er kveðið á um að stéttarfélög opinberra starfsmanna geta samið um aðild að Lífeyrissjóði ríkisins. Það er hins vegar ekki gert ráð fyrir að slíkar heimildir séu fyrir önnur verkalýðsfélög eins og t.d. ASÍ-félög. Það þarf að skoða hvort þessi þrenging sé um of. En það verður að vera alveg ljóst með hvaða hætti skuldbindingar ríkisins og launagreiðenda í sjóðnum verða. Þær eru einsdæmi í okkar lífeyrissjóðakerfi.

Ég bið menn að hártoga ekki hvort það er ríkisábyrgð eða ekki ríkisábyrgð. Það er ríkisábyrgð að því leyti að það er lögbundið að reikna út einu sinni á ári og iðgjaldið getur þess vegna farið upp á við. Það gæti þess vegna líka lækkað ef því er að skipta, en það er þetta sem er ólíkt í þessu kerfi miðað við það sem er á almenna markaðnum.