Lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins

Þriðjudaginn 03. desember 1996, kl. 18:54:42 (1767)

1996-12-03 18:54:42# 121. lþ. 33.4 fundur 180. mál: #A lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisins# (nýtt réttindakerfi) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur

[18:54]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru aðeins tvö atriði sem ég vil árétta án þess að fara í hvert einasta atriði sem kom fram hjá hv. þm. Í fyrsta lagi þarf ég að vera nákvæmari í því sem ég hef sagt fyrr í kvöld. Það er lögbundin aðild kennara að þessum sjóði þannig að það liggur fyrir sveitarfélögin væru að brjóta lög ef kennararnir ættu ekki aðild að sjóðnum eða fengju ekki aðild að sjóðnum og reyndar ríkið þá líka eftir atvikum.

Í öðru lagi þegar talað er um ábyrgðina, þá höfum við sagt að auðvitað er ábyrgðin fyrir hendi. Ábyrgðin er einmitt fólgin í því sem hv. þm. var að lýsa, að sjá til þess að inngreiðslan sé eftir þessari reikniformúlu sem hann lýsti. Það er rétt hjá honum að hlutföllin geta breyst frá ári til árs og sjálfsagt er stærsta breytan í því ávöxtun sjóðsins. Nú er reiknað með, ef ég man rétt, 3,5% en ef t.d. væri hægt að reikna með ávöxtun til frambúðar eins og hún hefur verið að undanförnu, þá væri framlagið miklum mun lægra. Hins vegar er rétt að það komi fram að margir tryggingafræðingar telja að það eigi að reikna með lægri ávöxtun sem þýddi þá að það sem ríkið legði inn þyrfti að vera enn hærra. Þetta getur breyst og ríkið og aðrir launagreiðendur bera ábyrgð á því að leggja sjóðnum til nægilega upphæð til að standa undir þeim framtíðarskuldbindingum sem byggjast á þeim réttindum sem er lýst í lögunum. En það sem ég sagði er að ef einhvern tíma kemur að því, sem ekkert er ólíklegt, að sjóðnum verði lokað vegna þess að menn vildu taka upp nýtt kerfi, kannski að sameina ASÍ og BSRB og taka upp eitt kerfi, þá á sjóðurinn sjálfur að standa undir skuldbindingunum og ríkið kemur þar ekki nærri. Það mun því bitna á réttindunum eða réttindin gætu aukist eftir atvikum þegar slík lokun á sér stað. Það er sem sagt ekki um frekari ábyrgð ríkisins að ræða heldur en þá sem hér hefur komið fram og hv. þm. lýsti reyndar.